Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Extreme chill fyrir dómstóla

27.08.2015 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Framganga lögreglunnar á tónlistarhátíðinni Extreme chill festival er á leið fyrir dómstóla. Lögmaður segir að aðgerðir lögreglu hafi sumar hverjar verið mjög alvarlegar.

Lögreglan á Vesturlandi stóð fyrir miklu fíkniefnaeftirliti á hátíðinni fyrr í sumar. Þar komu upp 29 fíkniefnamál, en um 200 manns voru staddir á hátíðinni.

Mjög alvarlegt
Helga Vala Helgadóttir, lögmaðurinn sem rekur málið fyrir hönd aðstandenda hátíðarinnar, tekur fram að leitaraðgerðir hafi bitnað á fjölmörgum gestum sem hyggist sameinast um málshöfðun. „Þetta eru það mörg tilvik. Og það eru mörg vitni og að okkar mati slíkar aðgerðir að það sé hægt að fara beint í málshöfðun án aðkomu ríkissaksóknara“ segir Helga.

Að hennar mati voru aðgerðir lögreglunnar „ sumar hverjar mjög alvarlegar“ og hún bætir því við að frásagnir fólks sem þurfti að þola aðgerðirnar séu enn að bætast við. Hún segir að málið sé í undirbúningi en það muni rata til dómstóla á næstunni.

Deilt um meðalhófsreglu
Snarrótin, samtök um borgaraleg réttindi, hefur einnig látið málið til sín taka. Pétur Þorsteinsson, forsvarsmaður Snarrótarinnar, telur að gestir hátíðarinnar hafi sætt mjög alvarlegu áreiti. „Við teljum mjög vafasamt að lögreglan hafi haldið sig innan ramma meðalhófsreglu og vafamál hvort massíf heimildarlaus leit á algjörlega friðsamri 200 manna hátíð standist grundvallarhugmyndir okkar um réttarfar í landinu," segir hann.

„Ég veit með vissu að málið er þegar komið inn fyrir þrepskjöldinn í innanríkisráðuneytinu," segir hann.

Lögregluríki innan réttarríkisins
„Snarrótin hefur safnað sögum einstaklinga sem komist hafa í kast við lögin á síðustu árum vegna fíkniefna. Niðurstaðan er sú að innan réttarríkisins á Íslandi leynist lögregluríki sem klappað hefur verið fyrir árum saman vegna þess að menn hafa ekki séð í gegnum spuna stjórnvalda gegn afmörkuðum jaðarhópi í samfélaginu, fólki sem leyfir sér að nota önnur vímuefni en áfengi," segir hann.

„Ég lýsi því yfir hiklaust, algjörlega hiklaust að extreme chill mun í framtíðinni vera talin vendipunktur í stríðinu gegn þeirri geggjun sem fíkniefnastríðið er og þeirri yfirgengilegu framgöngu sem einkennt hefur einstök lögreglulið á landinu," segir Pétur.

Hann fullyrðir að það sé ekki neitt jaðaráhugamál í samfélaginu að varðveita borgaraleg réttindi. „Ég bind ótvíræðar vonir við að núverandi innanríkisráðherra skoði þessi mál í fullri alvöru. Það er bæði réttur hennar og skylda," segir Pétur.

Skjálfandi af hræðslu
Pan Thorarensen er einn þeirra sem sáu um hátíðina, en fyrr í sumar sagði hann að aðgerðir lögreglu hefðu verið svo yfirgengilegar að gestir hátíðarinnar hafi verið skjálfandi af hræðslu.

Yfirlögregluþjónn Lögreglunnar á Vesturlandi sagði að ef það ætti á annað borð að uppræta fíkniefnamál á tónlistarhátíðum þá væri óumflýjanlegt að mæta með fíkniefnahunda og fara í markvissar aðgerðir. Hann tók þó fram að ef formleg kvörtun bærist til embættisins vegna aðgerðanna þá yrði það litið alvarlegum augum.