Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Evrópuríkin hafa Sám frænda að fífli“

12.07.2018 - 21:27
Erlent · Bandaríkin · Evrópa · NATO · Varnarmál
Mynd: pixabay / pixabay
Framtíð Atlantshafsbandalagsins kann að vera í hættu, standi Evrópuríkin ekki við skuldbindingar sínar. Albert Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum og fyrrverandi sendiherra segir að Trump Bandaríkjaforseti hafi ekki þrætt fyrir þá hótun á blaðamannafundi í dag.

Stormasömum fundi Atlantshafsbandalagsins lauk í dag. Trump hafði verið harðorður í yfirlýsingum fyrir fundinn, talað yfir hausamótunum á leiðtogum Evrópuríkjanna og sagt þeim hreint út að þeir yrðu að standa við skuldbindingar sínar. Hann tók málið aftur upp á fundi í morgun og Macron Frakklandsforseti og Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO voru dálítið eins og strákar sem höfðu verið sendir til skólastjórans á blaðamannafundinum í morgun og sögðu að nú ætluðu Evrópuríkin að herða sig og standa sig.

„Mér segir nú svo hugur að kannski hafi forsetinn viljað taka málið aftur upp til þess að gefa í skyn að bandalagið væri jafnvel í hættu ef menn stæðu sig ekki. Hann var spurður um það á fréttamannafundi og hafnaði því ekkert að hann hefði gefið það í skyn,“ segir Albert Jónsson.

Hann segir að ekki megi gleyma því að Bandaríkin hafi mjög sterkt tromp á hendi.

„Evrópuríkin þurfa meira á NATÓ að halda en Bandaríkin. Bandaríkin hafa alls ekki sömu öryggishagsmuni í Evrópu og áður, á meðan Sovétríkin voru og hétu. Mér finnst eftir að hafa fylgst með fréttum af fundinum að Trump hafi gefið þetta í skyn.“

Forsetar Bandaríkjanna hafa áður gagnrýnt ríki Evrópu fyrir að reiða sig um of á fjárframlög Bandaríkjanna og ekki taka nægan þátt í rekstri NATÓ, en fáir tekið eins sterkt til orða og Trump.

„Það hafa forverar hans gert, ekki reyndar opinberlega, en ég rakst á það í morgun á netinu og skoðaði það svo betur, að Eisenhower, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sagði á lokuðum fundi, ekki opinberlega, 1956, að Evrópuríkin væru að hafa Sám frænda, eins og hann orðaði það, að fífli í þessum málum og ættu að standa sig betur og verja miklu meiru til landvarna en þau gerðu,“ segir Albert Jónsson.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV