Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Evrópumet í svifryki

Mynd:  / 
Síðustu daga hefur Umhverfisstofnun staðið fyrir sýnasöfnun á mælistöðinni á Grensási. Sláandi munur er á sýnum sem var safnað um áramótin og dagana fyrir áramót. Þorsteinn Jóhannsson loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og Sævar Helgi Bragason komu í Mannlega þáttinn í dag.

Fyrir ári vakti Sævar Helgi Bragason athygli á mikilli mengun sem fylgir flugeldanotkun landsmanna um hver áramót. Það vakti fjörugar umræður og skiptar skoðanir eru á málinu. Það kom því ekki á óvart að umræðan kom aftur upp fyrir þessi áramót. „Ég vinn sem kennari og ég trúi því að fræðsla breyti hugsunum fólks,“ segir Sævar Helgi. Hann segist líta svo á að flugeldar um áramót séu hluti af stærri mynd, að fólk sé farið að gera sér betur grein fyrir alvarleika loftslagsbreytinga og að vandinn fram undan í loftslagsmálum sé býsna stór. „Og hvernig í ósköpunum eigum við að leysa þau stóru vandamál ef við getum ekki einu sinni tekið höndum saman og leyst litlu vandamálin sem auðvelt er að leysa? Hverju erum við tilbúin að fórna í þágu núlifandi og komandi kynslóða?“

Umhverfisstofnun birti í gær mynd af síum sem teknar voru úr mælistöðinni við Grensás í Reykjavík. Sláandi munur er á síunni frá því um áramót. Lengst til vinstri er ónotuð sía, sú í miðjunni er frá 30. desember og lengst til hægri er sían sem var í mælistöðinni frá 12 á hádegi á gamlársdag til 12 á hádegi á nýársdag.

Mynd með færslu
 Mynd:
Síurnar þrjár á mælistöð Umhverfisstofnunar á Grensási. Sú sem er lengst til hægri er frá nýársnótt.

„Það myndast mjög mikið ryk þegar flugeldarnir springa. Það eru settir ákveðnir málmar í flugeldana til að ná fram ákveðnum eiginleikum og ákveðnum litum,“ segir Þorsteinn. „Þegar þessi efni brenna þá myndast málmríkt ryk. Það gerir þetta áramótaryk slæmt því það er meira bólguvaldandi í lungum fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir.“ Hann segir að til dæmis hafi áramótin í fyrra verið mjög slæm, því þá hafi verið nánast logn á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafi mælst hæsta gildi svifryks á klukkustund, um 4.600 míkrógrömm á rúmmetra, sem sé líklega Evrópumet í klukkutímagildi, að minnsta kosti á seinni árum.

Sævar bendir á að þegar svifryksmengun fer yfir 200 míkrógrömm á rúmmetra, sem getur gerst á góðviðrisdögum nálægt fjölförnum umferðargötum, þá sé til dæmis börnum í leikskólum haldið inni til að vernda þau. Á áramótum getur þetta magn verið jafnvel tuttugufalt, en samt fari fólk þá út með börnin sín. „Mér finnst þetta mjög skrýtið, vægast sagt.“

Rótarskot

Einhverjar flugeldasölur buðu upp á aðra valkosti. Slysavarnafélagið Landsbjörg seldi svokölluð rótarskot, en hvert rótarskot táknar tré sem plantað er með stuðningi Skógræktarfélags Íslands, í nýjan Áramótaskóg Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Rétt fyrir jól fékk ég veður af þessu framtaki,“ segir Sævar Helgi. Hann segir að þessi hugmynd hafi komið upp í kjölfar umræðunnar í fyrra og að þetta hafi fallið í góðan jarðveg og hafi rótarskotin jafnvel selst upp. Hann segir að aðalatriðið sé að minnka magn flugelda sem skotið er upp af almenningi. „Fyrir einhverjum tuttugu árum var skotið upp um það bil einum tíunda af því sem skotið er upp í dag. En allir voru samt alveg jafn glaðir og nú.“

Viðtalið við Sævar Helga og Þorstein úr Mannlega þættinum er í spilaranum hér fyrir ofan.

ghansson's picture
Gunnar Hansson
dagskrárgerðarmaður