Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Éta hey sem gæti verið flúormengað

13.10.2012 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Bændur í Reyðarfirði bíða enn eftir niðurstöðum um hvort flúormengun hafi spillt heyjum sem komu af túnum í sumar. Hrossabóndi er þegar farinn að gefa hestum heyið.

Í sumar bilaði vöktunarbúnaður í álveri Alcoa Fjarðaáls með þeim afleiðingum að önnur bilun í mengunarvörnum uppgötvaðist of seint. Eftir því sem næst verður komist kom gat á poka sem hreinsar flúor úr útblæstri og streymdi efnið út í andrúmsloftið. Alcoa hefur enn ekki geta upplýst hve lengi þetta ástand varaði en afleiðingin fer ekki milli mála; flúor mældist yfir viðmiðunarmörkum fyrir grasbíta í Reyðarfirði í sumar.

Þegar það lá fyrir lét Alcoa bændur vita af þessu mengunarslysi. Bændur fengu svo heimsókn frá starfsmönnum Nátturústofu Austurlands en þeir voru í óháðum sýnatökuleiðangri fyrir Alcoa. Fyrirtækið sjálft lætur rannsaka hvort hey bænda í Reyðarfirði sé hæft sem fóður.

En meðan óvissan varir éta hestar á bænum Kollaleiru þetta hey. Þar er talsverð hrossarækt og sjö hross í tamningu. Þau fá öll hey sem kom af túnum í sumar, sama heyið og nú er flúormælt. Of hár styrkur getur skemmt tennur og bein grasbíta en viðmiðunarmörk í því sambandi eru á reiki. Hans Kjerúlf, hrossabóndi á Kollaleiru, segist ekki hafa miklar áhyggjur þó hestar fái þetta fóður í skamman tíma enda séu niðurstöður á leiðinni. Hann bendir á að engin stofnun hafi enn haft samband við bændur og gefið þeim ráð um hvað gera skuli meðan óvissan varir.