Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

ESB vill leggja mikið á sig

23.02.2011 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Carl Hamilton, sem fer fyrir nefnd 16 sænskra þingmanna í heimsókn til Íslands, telur að Evrópusambandið vilji leggja mikið á sig til að ná samningum í aðildarviðræðum Íslands.

Sænsku þingmennirnir eru úr Evrópunefnd og Fjárlaganefnd sænska Ríkisdagsins. Hamilton segir að þeir hafi kynnt sér endurreisn efnahagslífsins, Svíar hafi lánað Íslendingum og vilji fylgjast með. Lánið hafi verið óumdeilt í Svíþjóð. Hann segist bjartsýnn um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins.


„Við viljum að Ísland gangi í ESB. Það er engin óvild í því. Við viljum gera allt en skiljum að Ísland verður að vilja vera með, þjóðin þarf að greiða atkvæði um það. Því verðum við að gera aðild aðlaðandi fyrir Ísland þannig að þjóðin samþykki hana í þjóðaratkvæðagrieðslu. Evrópusambandið, rétt eins og við kynntumst á 10. áratugnum, á eftir að gera mjög mikið til að bjóða Íslendinga velkomna. Íslandi á að þykja það velkomið,“ segir Hamilton.


En telur Hamilton mögulegt að samkomulag takist um sjávarútvegsmál?


„Ég skil, og allir aðrir skilja, að sjávarútvegurinn er afgerandi spurning fyrir Ísland í viðræðunum. Og vegna þess að spurningin er svo geysilega mikilvæg er ég viss um að Ísland fær sérstakar undanþágur eða bráðbirgðaákvæði í sjávarútvegsmálum til þess að aðild verði möguleg og aðlaðandi fyrir Ísland. Við viljum taka vel á móti Íslandi en Íslendingar skynja ekki að þeir séu velkomnir fái þeir ekki sérmeðferð í sjávarútveginum og þess vegna fá þeir hana,“ segir Hamilton.


Hann segir að sambandið hafi lagað sig að kröfum allra nýrra meðlima, en tekur fram að þó að sambandið vilji fá Ísland með sé auðvitað Íslendinga einna að ákveða hvort þeir vilji ganga í það.