ESB verði sambandsríki

12.09.2012 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Evrópusambandið þarf að þróast í að verða sambandsríki. Þetta sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í árlegri stefnuræðu sinni frammi fyrir Evrópuþinginu í morgun.

Áður en Barroso flutti árlega stefnuræðu sína á Evrópuþinginu úrskurðaði stjórnlagadómstóll í Þýskalandi að björgunarsjóður Evrópusambandsins bryti ekki gegn stjórnarskrá landsins. Þá var leiðtogum létt. Verð hækkaði á mörkuðum.

Síðan lagði Barroso til nánari samruna aðildarríkjanna svo taka mætti með skilvirkari hætti á vandræðum á borð við þau sem hefðu herjað á evrusvæðið síðustu misseri. Að hans mati þarf ESB að verða sambandsríki þjóðríkja eins og hann orðar það, eins konar Bandaríki Evrópu.

Aðildarríkin þurfi að deila fullveldi sínu svo hvert ríki og hver borgari geti haft meiri stjórn á hlutskipti sínu. Það væru mistök að láta þjóðernishyggju og popúlisma ráða ferðinni í óvissunni sem nú ríkir. Barroso tók fram að til að mynda slíkt ríki þyrftu aðildarríkin að samþykkja nýjan sáttmála þess efnis.

Hann sagði verið að gera drög að reglum um sameiginlegt bankaeftirlit sem gefi Seðlabanka Evrópu áður óþekkt völd til að hafa afskipti af rekstri banka innan ESB.

 Carsten Brzeski, hagfræðingur hjá ING, segir þessar tillögur muni eins og margar aðrar enda með málamiðlun. Sennilega muni Evrópski seðlabankinn til að byrja með hafa umsjón og eftirlit með stærstu bönkum á evrusvæðinu.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi