Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

ESB kærir Frakka vegna róma-fólks

29.09.2010 - 20:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað í dag að höfða mál gegn Frökkum fyrir Evrópudómstólnum vegna meðferðar þeirra á róma-fólki, eða sígaunum. Dómsmálastjóri ESB segir að engu aðildarríki, hvorki stóru né smáu, líðist að brjóta lög sambandsins.

Fleiri en þúsund róma-fólki hefur verið vísað frá Frakklandi í sumar og það sent til Rúmeníu og Búlgaríu. Frakklandsforseti hefur verið harðlega gagnrýndur vegna þessa. Hann hefur svarað því til að með þessu sé verið að koma í veg fyrir að búðir róma-fólksins verði gróðrarstía mansals og barnaþrælkunar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað í dag að kæra framferði Frakka fyrir Evrópudómstólnum.

Framkvæmdastjórnin metur það svo að Frakkar hafi ekki leitt í lög allar reglum frjálsa ferð fólks innan ESB. Þar með hafi íbúar ESB-ríkja verið sviptir réttarfarslegri vernd. Þetta þurfi að leiðrétta.

Franski innflytjendamálaráðherrann sagði á þinginu í París í dag að ekki væri verið að snupra Frakka. Framkvæmdastjórnin hefði ekki kveðið upp dóm í málinu og leitaði skýringa.