Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

ESB grípur til aðgerða gegn Pólverjum

20.12.2017 - 12:42
epa06399821 First Vice-President of European Commission in charge of Better regulation, Inter-Institutional Relations, rule of Law and Charter of Fundamental Rights, Dutch, Frans Timmermans gives a press conference after the weekly College Meeting on the
Frans Timmermans. Mynd: EPA-EFE - EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf pólskum stjórnvöldum í dag formlega viðvörun um að afskipti þeirra af dómskerfi landsins kunni að brjóta í bága við grundvallarlög. Rannsókn verður hafin á því hvort svo sé. Aðgerðirnar gætu á endanum orðið til þess að Pólverjar missi atkvæðavald sinn í leiðtogaráði ESB.

Eftir viðvaranir síðustu mánuði ákvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í dag að virkja grein 7.1 Evrópusáttmálans vegna inngrips pólskra stjórnvalda í dómskerfi landsins. Samkvæmt þeirri grein hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á því hvort aðildarríki hafi gerst brotleg við grundvallarlög, svo sem með afskiptum af dómskerfinu. Ef rannsókn leiðir í ljós að aðildarríkið hafi gerst brotlegt er hægt að virkja grein 7.2 sem kveður á um refsiaðgerðir gegn aðildarríkinu og jafnvel missi atkvæðisréttar á vettvangi sambandsins.

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í hádeginu að þrettán lög sem sett hafa verið í Póllandi síðustu tvö árin gefi pólsku stjórninni færi á kerfisbundnum og pólitískum afskiptum um samsetningu, völd og uppbyggingu pólskra dómstóla. Timmermans sagði að þetta væri erfið ákvörðun en óumflýjanleg.

Sjöunda greinin hefur aldrei áður verið virkjuð og er hún aðeins hugsuð sem örþrifaráð.  Greinin getur að lokum leitt til þess að ríki sem henni er beitt gegn missi atkvæðisrétt sinn í leiðtogaráði Evrópusambandsins.

Pólska stjórnin tók nýjar reglur í gildi í síðustu viku sem auka völd hennar þegar kemur að skipun dómara. Reglurnar hafa ekki aðeins valdið Evrópusambandinu áhyggjum, því þúsundir Pólverja hafa þrammað um götur stórborga Póllands til þess að mótmæla áformunum.

Til þess að grein 7.2 í Evrópusáttmálanum verði virkjuð þurfa 22 ríki af 27 að samþykkja það. Þar segir að sterkar líkur séu á alvarlegu lögbroti meðal aðildarríkis. Ekki yrði gripið til refsiaðgerða fyrr en á öðru stigi greinarinnar, og til þess þarf samþykki allra ríkja sambandsins, utan þess brotlega. Að sögn AFP fréttastofunnar ætla Ungverjar að koma í veg fyrir það verði það reynt. Ráðamenn í Brussel vonast hins vegar til þess að táknræn áhrif virkjunar greinarinnar nægi til þess að Pólverjum snúist hugur.