Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

ESB gerir ítölsku stjórnina afturreka

23.10.2018 - 16:30
epa06776557 Italian Prime Minister-designate Giuseppe Conte (R) addresses the media to announce his list of ministers after a meeting with Italian President Sergio Mattarella at the Quirinale Palace in Rome, Italy, 31 May 2018. Conte formally accepted the
Giuseppe Conte forsætisráðherra Ítalíu. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafnaði í dag fyrirhuguðu fjárlagafrumvarpi ítölsku ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár. Þetta er í fyrsta sinn sem framkvæmdastjórnin fyrirskipar aðildarríki að endurskoða fjárlagafrumvarp sitt.

Framkvæmdastjórnin sagði að ítalska stjórnin hefði meðvitað farið á svig við þau viðmið sem gilda um ríkisfjármál aðildarríkja sambandsins. Framkvæmdastjórnin sagði Ítalíustjórn að leggja fram ný drög að fjárlögum innan þriggja vikna þar sem dregið yrði úr skuldasöfnun.

Valdis Dombrovskis, varaformaður framkvæmdastjórnarinnar, sagði að Evrópusambandið byggði á trausti og að ef eitthvert aðildarríki brygðist því trausti skaðaðist allt sambandið. Evrópusambandið getur lagt sektir á aðildarríki sem virða að vettugi reglur sambandsins um ríkisfjármál.

Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sagði í gær að drög að fjárlagafrumvarpi næsta árs hefðu það að markmiði að ýta undir hagvöxt og sporna gegn samdrætti.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV