ESB framfylgi vopnasölubanni

06.06.2016 - 15:41
epa05265028 Federica Mogherini, High Representative of the European Union for Foreign Affairs and Security Policy speaks to media prior to the Foreign Affairs Council meeting in Luxembourg, 18 April 2016. Ministers will focus on External aspects of
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins. Mynd: EPA
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, fór í dag fram á það við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að flota sambandsins á Miðjarðarhafi yrði veitt heimild til að framfylgja banni við sölu á vopnum til Líbíu.

Fréttastofan AFP greindi frá þessu og sagði að í öryggisráðinu væri til umræðu ályktunartillaga sem fæli í sér að herskip á vegum Evrópusambandsins fengju heimild til að stöðva og fara um borð í skip grunuð um flutninga á vopnum til Líbíu.

AFP segir að 25 lönd hafi í síðasta mánuði samþykkt að útvega nýjum valdhöfum í Trípólí vopn til að berjast gegn sveitum Íslamska ríkisins í Líbíu. Til þess þurfi samþykki frá öryggisráðinu fyrir undanþágu á gildandi vopnasölubanni frá 2011.

AFP segir að rætt verði um það í öryggisráðinu í dag hvort og þá hvernig nýja stjórnin í Líbíu geti tryggt að þessi vopn falli ekki í hendur vígamanna Íslamska ríkisins.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi