Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið sé ekki á dagskrá að óbreyttu.
Í viðtali við Bændablaðið segir Sigurður Ingi að það sé mat beggja stjórnarflokkanna og meirihluta landsmanna að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan sambandsins. Ef það breytist þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu til. Hann segist ekki sjá á næstu árum að ástandið í Evrópu og í heiminum verði með þeim hætti að íslensk þjóð muni óska eftir inngöngu í Evrópusambandið.