Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

ESB andstæðingar fastir við sinn keip

03.02.2016 - 13:07
Nigel Farage í viðtali við írska sjónvarpið
Nigel Farage segir samkomulagið ömurlegt Mynd: RTE
Flestir yfirlýstir andstæðingar aðildar Bretlands að Evrópusambandinu segja að samkomulagsdrög Breta og ESB, sem kynnt voru í gær, séu þunnur þrettándi og breyti ekki afstöðu þeirra. David Cameron forsætisráðherra segir að komið hafi verið til móts við fjórar meginkröfur Breta um breytingar.

Evrópa erfið Íhaldsmönnum

Afstaðan til Evrópusambandsins hefur löngum verið erfiður ljár í þúfu fyrir breska Íhaldsflokkinn. Deilur um Evrópustefnuna gerðu John Major afar erfitt fyrir er hann var forsætisráðherra á tíunda áratug síðustu aldar. Marga hörðustu andstæðinga ESB-aðildar Breta er að finna í flokknum. Það var til að friða þennan hóp og vinna gegn uppgangi breska sjálfstæðisflokksins, UKIP, sem David Cameron lofaði fyrir síðustu kosningar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru í ESB ef flokkurinn yrði við völd. Fyrst yrði samið við sambandið að nýju og svo kosið.

Drög að samkomulagi birt í gær

Drög að þessu samkomulagi voru birt í gær. Cameron segir að umtalsverður árangur hafði náðst þó að margt sé enn ógert. Nigel Farage, leiðtogi UKIP, segir drögin ömurleg, Bretar endurheimti ekkert vald frá ESB, greiðslur til ESB minnki ekki og Bretar ráði ekki landamærum sínum.

Margir andvígir innflytjendum

Það er ekki síst fjöldi útlendinga í Bretlandi sem hefur orðið vatn á myllu Farage og UKIP. Sú skoðun er útbreidd að allt of margir flytjist til landsins, hana mátti heyra er breska ríkisútvarpið spurði vegfarendur um samkomulagsdrögin. Ný skoðanakönnun bendir þó til þess að meirihluti Breta vilji vera áfram í ESB þó að þeir séu mishrifnir af sambandinu.

Leiðtogafundur ESB 18. og 19. febrúar

Samkomulagsdrögin verða til umræðu  og staðfestingar á næsta leiðtogafundi ESB, 18. og 19. febrúar. Breska stjórnin vonast til að geta efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru í ESB í júní.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV