Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

ESA stefnir Noregi vegna fæðingarorlofs karla

09.05.2018 - 16:18
Mynd: EBU / EBU
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur höfðað mál gegn norsku ríkisstjórninni vegna þess að reglur um fæðingarorlof mismuni kynjunum. Karlar hafi ekki rétt á á orlofi ef móðirin er heimavinnandi. ESA telur þetta brot á jafnræðisreglunni.

Jafnræði er lykilatriði

Eftirlitsstofnunin segir að jafnræði sé lykilatriði í evrópskri löggjöf sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu og það verði ekki liðið að Norðmenn brjóti þá meginreglu. Bente Angell-Hansen, formaður stjórnar ESA, segir að norsku reglurnar séu kerfisbundin og ólögleg mismunun. Því verði ESA að draga þá til ábyrgðar.

Frábiðja sér afskipti frá Brussel

Linda Hofstad Helleland, ráðherra jafnréttis og málefna barna, frábiður sér afskipti frá Brussel. Hún segir að Noregur sé fyrirmynd í jafnréttismálum og það gildi um möguleika feðra til að umgangast börn sín. Helleland, sem er í Hægriflokknum, vill ekki lofa breytingum á norskum lögum, pólitískur vilji allra flokka sé í orði en ekki á borði. Enginn flokka á þingi sé reiðubúinn til að verja 800 milljónum norskra króna sem þurfi til að breyta reglunum svo feður eigi rétt á orlofi ef móðirin er heimavinnandi.

Finnst hann beittur órétti

Jens Kyed er fimm barna faðir, sem norska ríkisútvarpið NRK ræddi við. Kyed fékk ekki fæðingarorlof vegna þess að kona hans er heimavinnandi. Sex þúsund aðrir feður í Noregi eru í sömu sporum og Kyed. Hann segir að kona hans hafi verið heimavinnandi frá því fyrsta barn þeirra fæddist. Hann hafi því ekki fengið fæðingarorlof og telji það óréttlátt. Kyed fagnar málshöfðun ESA og telur norsk stjórnvöld vera að verja vondan málstað.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV