Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

ESA í mál við Norðmenn

07.05.2018 - 10:25
Mynd með færslu
EFTA dómstóllinn í Lúxemborg. Mynd: EFTA dómstóllinn - Aðsend mynd
ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur að kynjamismunun felist í lögum um fæðingarorlof í Noregi og að þau brjóti þannig í bága við reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Það er niðurstaða ESA að réttur feðra sé mun takmarkaðri í Noregi en réttur mæðra, sem stríði gegn lögum og reglum, og hyggst stofnunin fara með málið fyrir EFTA-dómstólnum.

Í fréttatilkynningu frá ESA er haft eftir Bente Angell-Hansen, yfirmanni stofnunarinnar, að kjarni laga um Evrópska efnahagssvæðið snúist um jafnrétti kynjanna. Þegar karlar og konur í Noregi fái mismunandi meðferð með skipulögðum og ólöglegum hætti verði að draga yfirvöld þar til ábyrgðar.

Foreldrar í Noregi eiga rétt á 10 vikna fæðingarorlofi ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði. Þar að auki eiga foreldrar saman rétt á 26 vikna orlofi sem þeim er frjálst að skipta sín á milli eins og þeim hentar. Samkvæmt norskum lögum hefur faðir aðeins rétt á fæðingarorlofi á launum ef móðirin er í vinnu eða námi. Engin slík skilyrði eru sett um greiðslur til mæðra í fæðingarorlofi. Sú upphæð sem feðurnir fá, þegar þeir taka sinn hluta af 26 vikna orlofinu, er háð því hve mikið móðirin þénar. Það sama gildir ekki um mæðurnar þegar þær taka sinn hluta orlofsins.  

Angell-Hansen segir að samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins sé Norðmönnum ekki skylt að bjóða upp á mæðra- og feðraorlof en þar sem svo sé verði að gæta jafnræðis.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir