Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

ESA gefur grænt ljós á aðstoð

23.06.2010 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt ríkinu heimild til að koma að fjárhagslegri endurskipulagningu fimm sparisjóða. Í ljósi þessarar heimildar væntir framkvæmdastjóri Sambands sparisjóða þess að unnt verði að ganga frá málinu á næstu vikum.

Lengi hefur legið fyrir með aðkomu ríkisins að Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Svarfdæla,Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóði Norðfjarðar og Sparisjóði Vestmannaeyja. Til þess að ljúka málinu hefur verið beðið vikum saman eftir áliti Eftirlitstofnunar EFTA á því að ríkið tæki þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðanna.

Nú liggur þetta álit fyrir og veitir stofnunin heimild til aðkomu ríkisins að sjóðunum. Fyrir 21. desember 2010 verða íslensk stjórnvöld að leggja fyrir Eftirlitsstofnun EFTA áætlun um endurskipulagningu sjóðanna.

Við fall Sparisjóðabankans eignaðist Seðlabankinn rúmlega átta milljarða kröfur á hendur sparisjóðunum. Gert er ráð fyrir að þessum kröfum verði að hluta breytt í eigið fé og eða víkjandi lán og að hluta verða kröfurnar færðar niður. Þá er miðað við að breyta hluta þessara krafna í almenn lán til fimm ára með vöxtum sem taki mið af aðstæðum, eins og það er orðað.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands sparisjóða, sagði í samtali við fréttastofu að þessi heimild Eftirlitsstofnunar EFTA þýddi að á næstu vikum væri unnt að ganga frá samningum um aðkomu ríkisins að áðurnefndum fimm sparisjóðum.