Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erum við föst í endalausri skissu?

Mynd: Listasafn Reykjavíkur / Listasafn Reykjavíkur

Erum við föst í endalausri skissu?

29.12.2017 - 12:11

Höfundar

„List getur sýnt okkur að framför er sjónhverfing líka, eða í besta falli myndlíking. Það leysist ekki úr sögunni; framför er ekki óhjákvæmileg,“ segir Starkaður Sigurðarson, myndlistarrýnir Víðsjár. Hann fór á sýningu Hafnarhússins, Í hlutarins eðli - skissa að íslenskri samtímasögu.

Starkaður Sigurðarson skrifar:

Það er ekkert sem er óhjákvæmilegt. Í hvert skipti sem húsveggur er málaður þarf að mála vegginn, þótt liturinn sé sá sami, þótt við máluðum hann líka í hitt í fyrra. Það þarf að þrífa hann, vírbursta það sem flagnað hefur; pensill, stigi, grunna, mála. Það þarf að vera þurrt, það má ekki sletta á gangstéttina. Og þó það sé eins og við höfum verið að mála þennan vegg bara fyrir nokkrum vikum þýðir ekki að við þurfum ekki að mála hann núna. Ef þú málar ekki vegginn þá málar hann enginn. Það er ekkert í þessum heimi sem gerist sjálfkrafa. Þótt það líti oft þannig út. Veggir eru málaðir, sumir oftar en aðrir, holur í götum eru stundum fylltar, sandi er stráð um gangstéttir í frosti, stundum jafnvel, en ekki oft, um hjólastíga. Mjólk fæst í búðum, bananar, símar, tölvur; myndlistarsýningar eru opnaðar í gallerýum og söfnum. Vetur kemur, vetur fer, tréið fellur laufin en tekur þau svo aftur upp.

Allt hefur útskýringu

En sumir vetrar eru kaldari en aðrir; og einhverntíman mun einhver hugsanlega sjá þann dag sem jörðin snýr sér ekki að sólinni heldur að myrkraðri tómri tvívíð og við missum haldið á því sem við stöndum á. Af því allt hefur útskýringu. Málarameistarinn er menntaður og launaður, höndin sem þjappar malbikinu er kölluð út af neti sem tengir allt við alla; ég kæmist ekki langt án starfskrafti þeim sem mokar snjó og keyrir út sandinn, þótt ég þurfi stundum að hjóla bara á göngustígum. Það er ekki óhjákvæmilegt að götuljósin kvikni, að listamaður gerir listaverk, að listamaður setji saman listasýningu. Það þarf margt að vera útbúið til að hafa aðgang að hvítum vegg til að mála eða mat úti í búð. Það er ekkert sem er óhjákvæmilegt.

Það þarf sem sagt alltaf að vera að skrifa söguna, hún skrifar sig ekki sjálf. En hver skrifar hana þá?

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Reykjavíkur
Dodda Maggý Étude op. 88, no 1 2017 myndband, 10:30 mín

Ómanneskjuleg manneskja

Í sölum E og F í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur er sýning er heitir Í hlutarins eðli – skissa að íslenskri samtímalistasögu [1.0]. Hér eru verk eftir 14 listamenn, verk sem eru í eigu Listasafns Reykjavíkur. Samtíminn hér er um þrjátíu ár, og flestir af þessum listamönum eru enn að störfum. Mikið af því sem er í gangi í dag er, eftir allt, það sem hefur verið í gangi. Verkin eru ólík hvoru öðru en allavega eitt er sameiginlegt, ekkert af þeim sýnir manneskju, nema eitt eftir Gabríelu Friðriksdóttur og þar er manneskjan ómanneskjuleg, skrímsli eða grímuklæddur ótti ofan á kvenlíkama. Það eru tæki og tól, vandlega samsettar tilraunir, puttar sem benda annað, þótt lítið hafi verið um lesefni á sýningunni. Það eru stærðfræði kenningar, líffræði, tónfræði, en líka söfnunarárátta, plasthlutir teknir upp af götunni, (götuhreinsun), þeir eru teiknaðir og raðað í litakerfi. Þetta er leitandi tímabil.

Skakkar spegilmyndir

Eitt af verkum Hreins Friðfinnssonar á sýningunni er hálfur gler vasi sem liggur á spegli á gólfinu. Spegillinn býr til hinn helminginn af vasanum, kominn ofan í jörðina. Þar sér maður mann, hugsanlega sjálfan sig, er maður horfir ofan í þetta gólf og speglar heiminn. En hvað er þetta? Spegillinn er ekki spegill, gler og filma, heldur stál plata, póleruð og gljáandi. Spegill er sléttur, hornréttur, þessi plata svignar, hún eltir hallann og brúnirnar í gólfinu sem hún situr á. Spegilmyndin er skökk, maðurinn er teygður og samþjappaður – eða það er að segja, speglunin getur ekki verið annað en skökk. Þetta er skissa. Hluturinn er bara hálfur. Verkið er titlað: án titils, en svo inn í sviga stendur: (swimmer). Syndir vasinn? Í hverju?

Erfitt að segja söguna

Eitt af hverjum þrem verkum á sýningunni er titlað án titils. Þegar það er bæði erfitt að segja eitthvað og erfitt að segja ekkert, hvað segir án titils áhorfanda? Hvað getur hluturinn sagt okkur? Hvað er í hlutarins eðli? Hver talar þegar hlutur hefur ekkert eiginlegt eðli út fyrir eðli mannsins. Það er ekkert sem heitir eðli nema maðurinn nefnir það. Og án titls er titill líka, og ekki slæmur fyrir það. En er mikilvægt að nefna hlut? Núna er Listasafn Reykjavíkur að segja söguna. Og það er mikilvægt að segja söguna, þótt þetta sé ekki eina sagan, eða rétta sagan, eða ranga sagan, eða svar við spurningu. Þessi saga var ekki óumflýjanleg eða sjálfsögð, hún var og er búin til, fyrst af einhverjum, svo af öðrum. Maðurinn býr í þessari bjöguðu spegilmynd. Og sá maður þarf að segja söguna. Og það er erfitt að segja söguna.

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Reykjavíkur
Hreinn Friðfinnsson Composition 2016 loftsteinn, seglar, þræðir

Listaverk segir alltaf eitthvað

Fræga málverkið af pípulíkinu eftir Belgíska málarann Magritte heitir ekki það sem maður heldur kannski, heldur heitir það La trahison des images, Blekking myndanna. Hann blekkir okkur og svo segir hann okkur að við höfum verið blekkt. Þetta er ekki pípa. Ef eitthvað kemur nálægt því að vera óumfljýanlegt þá er það að vera blekktur. Málverk sem Magritte seinna titlaði Útskýringin er málverk af tveimur tómum vínflöskum, en efri hluti einnar flöskunnar er gulrót. Hann málaði mynd af manni sem lítur í spegil en það sem speglast er sami hnakkinn á manninum og við sjáum málaðan. Ekki speglun heldur eitthvað annað. Í titlinum bannar hann okkur síðan að gera þetta sem er gert á striganum; þetta er bönnuð speglun. Þetta er súrrealismi, þar sem undir mynd af hatti er skrifað snjór og eðli hluta er breytt. Við gætum verið bæði fyrir ofan eða fyrir neðan raunveruleikann. En, hvað sem sýnist, þá er það raunveruleikinn sem alltaf var súrrealískur og hann er það ekki minna í samtímanum. Listaverk segir alltaf eitthvað, með eða án titils, það sem er erfitt er að segja nákvæmlega hvað.

Sagan segir sig ekki sjálf

Þessa sögu þurfum við að segja og segja aftur, alltaf að vera að segja hana. Það sem kemur í ljós er að þótt þú hafir málað vegginn í hitt, eða hitt í hitt í fyrra, þá má það vera að þú munir ekki alveg hvar þú hafðir ákveðið væri best að byrja, eða hvað málningin hét, eða hvort grunnurinn sem þú ætlaðir að nota var ekki til þannig að þú notaðir eitthvað annað, hvað? Þú þarft alltaf að læra upp á nýtt að mála vegginn. Sagan segir sig ekki sjálf, og það er ekki óhjákvæmilegt að veggurinn verði málaður. Veggir eru oft látnir grotna. Öfl sem áður hafa snert sögu mannkynsins geta snert hana aftur og aftur. Víglínan er aldrei kyrr.

Allt getur breyst

List getur sýnt okkur að framför er sjónhverfing líka, eða í besta falli myndlíking. Það leysist ekki úr sögunni; framför er ekki óhjákvæmileg. Við megum ekki trúa því að okkur fer fram, að það sé óhjákvæmilegt að við séum klárari en fólkið 1929 að sjá pípuna í fyrsta skiptið, tími líka eftir kreppu, tími sem er enn okkar samtími. Oft kemur eitthvað fyrir sem ekki var búist við. Allt getur breyst. Bæði til hins betra og til hins verra. Það gæti verið að það komi ekki aftur kreppa, að það hafi ekki verði brugðist of seint við hlýnun jarðar, að allir fari að hjóla, en hvaða saga er það?

Myndlistin og sagnfræðin

Að gera myndlist er að þurfa að vera sagnfræðingur. Ef ekki bara til að gera ekki listaverk sem hefur nú þegar verið gert. Málverk er eitt af elstu hlutunum sem maðurinn hefur. En það er mikilvægt að vera sagnfræðingur líka af því að samtalið sem þú átt við listaverkið er alltaf aftur í tíman. Salurinn sem þú sýnir í var gerður af ótal mörgum öðrum. Þessi tilvitnun er alltaf til staðar. Listamaður getur jafnvel endurgert listaverk sem hefur verið gert og þá er það nýtt listaverk.

Ekkert gerist af sjálfu sér

Á þessari samtímasýningu er verk eftir Magnús Árnason frá 2011 þar sem hann endurgerir tilraun Louis Pasteur frá því um 1860 sem afsannaði ríkjandi hugmyndir manna um sjálfkviknun lífs. Hvað er listaverkið hér? Er það gler hluturinn á borðinu, eða í þessu tilviki, gler hlutirnir, tveir næstum eins? Eða er það vökvinn sem er í þessum svanahálsflöskum? Í einni er vökvinn hreinn og tær, í hinni er hann gruggugur og mengaður af lífi. Er það liturinn sem er listin, eða ljósið, eða titillinn, Homage? Eða er það kannski það að við munum eftir því að þetta hafi verið gert áður? Að einhverntímann hélt fólk kannski að loft bæri í sér eiginleika til að búa til líf, eins og galdrar, úr engu, og að þar lægi svörin við okkar spurningum? Er listin hér minningin um að það lifði einhverntímann maður í Frakklandi sem sýndi að líf er búið til, af sýklum og örverum, í loftinu, af ástæðu, ósýnilegri, næstum. Ekkert gerist af sjálfu sér.

Skissan endalausa

En erum við þá föst í endalausri skissu? Þar sem við sjáum spurningarnar, en sjaldnast svörin? Þar sem við endurtökum okkur stundum, en stundum ekki. Gleymum sumu, munum sumt. Föst með bara einn helming af vasanum? Ættum við að gera ráð fyrir því að vasinn sé í eðli sínu heill eða hálfur? Er hægt að kalla þennan hlut vasa? Hvað er hægt að nefna? Eða segir þetta sig allt sjálft? Við þurfum að halda áfram að segja söguna.