„Erum þakklát og hrærð“

10.06.2017 - 01:12
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi.
 Mynd: RÚV
Yfir 1.850 ákváðu að gerast heimsforeldrar UNICEF í dag, á degi rauða nefsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu UNICEF. Auk þeirra hækkaði fjöldi núverandi heimsforeldra mánaðarlegt framlag sitt til verkefnisins. Auk þess söfnuðust um fimm og hálf milljón króna í stökum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum.

Dagur rauða nefsins náði hámarki í kvöld með rúmlega þriggja klukkustunda þætti í beinni útsendingu RÚV, þar sem kenndi ýmissa grasa. Myndbönd frá skemmtiefni kvöldsins má finna á vef RÚV.

Nærri 28 þúsund Íslendingar eru heimsforeldrar UNICEF. Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir samtökin ekki geta verið ánægðari með niðurstöðuna og hún sé framar björtustu vonum. „Við bjóðum alla nýja heimsforeldra UNICEF hjartanlega velkomna og erum þakklát og hrærð yfir því hversu stór hluti þjóðarinnar leggur baráttu UNICEF lið," segir Bergsteinn.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi