Erum ekki wahhabistar

Mynd með færslu
 Mynd:

Erum ekki wahhabistar

17.07.2013 - 19:01
Moskubyggingu hefur verið mótmælt bæði á Facebook og í aðsendum greinum til dagblaðanna.

Til dæmis hélt Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri, því fram að moska yrði ógn við öryggi landsmanna og íslenska þjóðmenningu. Oft virðist erfitt að greina hvort verið er að mótmæla mosku eða veru múslima á Íslandi.

Tvö ólík félög
Á Íslandi eru skráð tvö múslimsk trúfélög. Þau eru um margt ólík og bæði hafa þegar eigið bænahús til afnota. Annarsvegar er um að ræða Félag múslima á Íslandi, sem fengið hefur lóð undir mosku í Sogamýri, og hinsvegar Menningarsetur múslima á Íslandi sem er með aðsetur í Ýmishúsinu við Skógarhlíð í Reykjavík.

Sverrir Agnarsson, formaður félags múslima segir að starfsemi moskunnar verði fjölbreytt. Þar verði bænaaðstaða, bókasafn, félagsmiðstöð og fræðslusetur. Meðlimir félagsins eru af ýmsum þjóðernum og samskiptin verða því á mörgum tungumálum, mest þó á íslensku. Hann segir alla starfsmenn vera í sjálfboðavinnu. Moskan verður fjármögnuð með styrkjum og vonast Sverrir meðal annars eftir styrk frá The Islamic council í Mekka.  Hann segir lýðræðislega kjörna stjórn og öldungaráð setja stefnu félagsins.

Þá segir hann af og frá að moskan verði helsta kennileiti Reykjavíkurborgar. Nú stendur yfir samkeppni um útlit moskunnar og hafa allir leyfi til að skila inn teikningum.

Fengu ekki hljómgrunn
Fyrst var aðeins eitt félag múslima hérlendis en þrjátíu manna hópur klauf sig út úr starfinu árið tvöþúsund og átta og stofnaði Menningarsetur múslima. Ástæðan var sú að þeim fannst hugmyndir sínar ekki fá hljómgrunn innan stjórnar Félags múslima. Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi segir að upp hafi komið ósætti.

Sverrir vill ekki meina að meðlimir Menningarsetursins séu strangtrúaðri en fólk í hans félagi. Í báðum félögum sé allskonar fólk og mikill samgangur á milli. Hann segir að frekar sé um að ræða einstrengingshátt og sterk tengsl við hefðir í eigin heimalandi. Þá segir hann að Félag múslima á Íslandi vilji, ólíkt Menningarsetri múslima á Íslandi, ekki vera hluti af erlendum samtökum.

Hafa sætt gagnrýni í Svíþjóð
Al-Risalah samtökin veita styrki til ýmissa aðila svo sem skóla og trúarstofnana. Sverrir segir samtökin hafa sætt gagnrýni í Svíþjóð vegna andstöðu við söng og tónlist. Þá hefur skólastjóri í skóla sem rekin er af samtökunum verið gagnrýndur fyrir að halda því fram að sannir múslimar geti ekki verið samkynhneigðir. Sverrir sagði þó að meðlimir Menningarseturs múslima á Íslandi væru góðir og gegnir múslima þó hann sé ósáttur við aðalstyrktarsamtök þeirra. Þá sagði hann félögin hafa gjörólíka afstöðu til föstunnar, meðlimir Menningarsetursins fasti nær allan sólarhringinn en þeim í Félagi múslima á Íslandi finnist það of langt gengið.

Fjölbreytileikinn eðlilegur
Ahmad Seddeeq, Ímam, eða trúarlegur leiðtogi, hjá Menningarsetri múslima tók undir það með Sverri að samgangur væri á milli félaganna. Fólk færi í báðar moskurnar og upplifði sig velkomið. Ahmad vakti athygli á því að víða á Norðurlöndunum væru mörg trúarsamtök múslima og margar moskur. Það væri eðlilegt að hafa ólíkar nálganir. Hann sagði mikilvægt að nota ekki lýsingarorð eins og strangtrúaður múslimi eða frjálslyndur múslimi í blindni. Í slíkum samræðum þyrfti alltaf að færa rök fyrir því hvað það væri í hegðun og hugmyndafræði sem fengi fólk til að grípa til slíkra orða. Þá sagði hann það ekki vera á færi hvers sem er að slá fram fullyrðingum um Íslam. Allir gætu iðkað trúna en til þess að taka þátt í fræðilegri umræðu og dæma þyrfti fólk að hafa aflað sér menntunar.

Ahmad lagði áherslu á að Íslam væri ekki þjóðerni og að ekki væri til ein íslömsk menning. Múslimar kæmu frá ólíkum löndum og hefðu ólíkan menningarlegan bakgrunn en væru sameinaðir í trúnni. Það sama gilti um meðlimi félagsins, þeir kæmu frá ýmsum löndum og hefðu ólíkar hefðir í sínum heimalöndum.

Sjálfstætt félag
Ahmed vísaði því á bug að Menningarsetrið tengdist einhverjum einum samtökum. Setrið fær styrki frá ýmsum aðilum. Al-Risalah er einn stærsti styrktaraðilinn og keypti Ýmishúsið á sínum tíma. Samtökin eru með aðsetur í Sádí-Arabíu en í stjórn þeirra sitja meðal annars menn frá Írak og Pakistan. Ahmad segir samtökin örugg og bendir á, því til stuðnings að þau séu skráð í Svíþjóð, reki stóran grunnskóla í Örebro og fari að sænskum lögum. Þá segir hann samtökin ekki gera nokkra kröfu á stjórn Menningarsetursins og ekki hafa nein áhrif á starfsemi þess. Menningarsetrið geti þess í stjórnarskrá sinni að það ráði sínum málum sjálft. Ahmed segir meðlimi Menningarsetursins fara eftir íslenskum lögum í einu og öllu. Hann segir að mörgum Íslendingum kunni að þykja skrítið að trúfélagið geti fengið svo mikið fé erlendis frá. Hann bendir á að ein af grunnstoðum Íslams sé að gefa fé til góðgerðarmála. Ástæðan fyrir því að Al-Risalah getur styrkt félagið svona mikið sé sú að efnaðir menn frá ýmsum múslimskum löndum gefi tvö komma fimm prósent af auði sínum til slíkra samtaka. Samtökin nota svo féð til að styrkja múslima víðsvegar um heim. Að auki hefur Menningarsetrið hlotið styrki frá ýmsum einstaklingum, til dæmis frá Konungi Sádí-Arabíu, Abdullah bin Abdulaziz. Þá fær setrið, líkt og önnur trúfélög, styrk frá íslenska ríkinu.

Ekki wahhabistar
Þegar Ahmad er spurður hvort meðlimir Menningarseturs múslima á Íslandi aðhyllist wahhabisma, segir hann svo ekki vera. Wahhabismi sé ekkert eitt, hvorki samtök né stefna. Nafnið sé komið frá Sádí Arabískum manni, Muhammad Ibn Abdul-Wahhab sem var uppi fyrir tveimur öldum, skrifaði bækur og mótmælti skurðgoðadýrkun. Ahmad segir að hans vegna sé oft talað um Sádí-Arabíska múslima sem wahhabista, þar líkt og annarsstaðar séu þó ólíkir hópar og ólík túlkun á Íslam. Menningarsetrið fylgir að hans sögn hinni sönnu útgáfu af Íslam en tengir sig hvorki við hreyfingar né isma. Hann segir imaminn stjórna því hvaða stefna er tekin innan hvers safnaðar. Sjálfur er hann með meistaragráðu í íslömskum fræðum frá AL-Azhar háskólanum í Egyptlandi og nam við íslamska skóla frá fimm ára aldri. Hann segir forsvarsmenn Al-Azhar háskólans meðal annars hafa talað fyrir umburðarlyndi og tekið afstöðu gegn ofbeldi.

Þá mótmælir Ahmad því að Al-Risalah banni fólki að dansa og syngja. Hann segir að þegar vitnað sé í kóraninn sé sungið með fallegri röddu og ekkert hindri múslima í því að leika á hljóðfæri. Hinsvegar sé söngur sem fjallar um kynlíf og freistingar eða leiðir til illra verka ekki við hæfi. Fræðimenn innan Íslam deili um það hvar nákvæmlega skuli setja mörkin. Hann segir þó ekki koma til greina að skikka fólk til eins né neins, engum sé refsað og fólk ráði því hvað það hlusti á.