„Erum bara að spila spil og fara á trúnó“

Mynd: Ólafur Arnalds/Facebook / Facebook

„Erum bara að spila spil og fara á trúnó“

04.05.2018 - 20:32

Höfundar

„Ég fíla lífið þar sem ég er, stundum hér og stundum annars staðar,“ segir tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds sem hlaut nýverið tilnefningu til BRIT-verðlaunanna fyrir tónverk ársins. Hann er staddur hér á landi um þessar mundir en í næstu viku heldur hann í tónleikaferðalag sem stendur í eitt og hálft ár. Síðdegisútvarpið tók hann tali.

„Mér finnst Ísland rosa gott í hófi,“ segir Ólafur sem er yfirleitt á faraldsfæti og stoppar ekki lengi í einu. Síðustu ár í hans lífi hafa einkennst af tíðum tónleikaferðalögum en auk þess af því að semja og flytja tónlist með hljómsveit undir eigin nafni er hann einnig helmingur tilraunakennda raftónlistardúettsins Kiasmos, þar sem hann semur og flytur tónlist ásamt færeyska tónlistarmanninum Janusi Rasmussen.

Er aðallega að fara á túr

Ólafur er fæddur árið 1986. Í upphafi ferilsins tók hann þátt í ýmsum tónlistartengdum verkefnum, lék í ýmsum hljómsveitum, sér í lagi í þungarokki. Fyrsta sólóplata Ólafs, Eulogy for Evolution kom út árið 2007 og markaði ákveðin vatnaskil. Hann hefur síðan átt æði fjölbreyttan feril og sent frá sér tvær breiðskífur undir eigin nafni en hefur að auki verið virkur í ýmsum samstarfsverkefnum. Að ógleymdum fyrrnefndum Kiasmos dúett má þar nefna Nils Frahm og Arnór Dan sem dæmi um samverkamenn. Aðspurður segist Óli eiga erfitt með að vera lengi á sama stað í einu, en hann fíli lífið þar sem hann er „stundum hér og stundum annars staðar. Akkúrat núna er ég aðallega að fara á túr.“

Gerir tónlist fyrir Baldvin Z

Ólafur heldur af stað í mikið tónleikaferðalag á fimmtudaginn í næstu viku. „Undirbúningur er á fullu, það er mikil vinna á bakvið það. Við erum með ágætlega stórt production, mikið í gangi á sviðinu, mikið setup og mikil læti,“ segir hann. Tónleikaferðalög eru þó ekki eina búgreinin heldur sinnir hann einnig tónsmíðum fyrir kvikmyndir. „Ég er að klára músíkina fyrir nýjustu myndina hans Baldvins Z sem heitir Lof mér að falla, æðisleg mynd sem kemur í haust. Ég er að klára það á sama tíma og ég er alveg að fara út og verð svo bara úti, eiginlega næsta eitt og hálfa árið“. Hann segir undirbúninginn fyrir tónleikaferðina hafa hafist í október. „Það þarf í fyrsta lagi að velja hljómsveit, svo þarf maður að velja sér crew. Þar eru tveir að sjá um hljóð, tveir að sjá um ljós og svo er alls konar management-fólk og rótarar. Svo þarf að finna sviðshönnun sem ég er sáttur við,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: © Florian Trykowski - www.floriantrykowski.de
Ólafur lék ásamt Janusi Rasmussen undir nafni rafdúettsins Kiasmos í Hörpu á Airwaves 2015.

Lærir sín eigin lög

„Síðustu vikurnar hafa aðallega verið æfingar. Ég er að læra mín eigin lög sem maður ætti ekki að þurfa, en þarf víst,“ segir hann og hlær. „Ég spila á píanóið í sjóvinu og svo alls konar hljóðgervla, við erum með trommara og strengjakvartett.“ Hann segir að þó að vinnan sé vissulega mikil í verkefni sem kennt er við hann sjálfan sé hann með æðislegt lið til að hjálpa sér. Varðandi dreifingu álags í sólóverkefni af þessu tagi fagnar hann því að vissu leyti. „Sem betur fer, af því ég er mjög stjórnsamur og sérvitur og vil hafa hendurnar í öllu líka.“  

Rúturnar eru svolítið næs

Tónleikaferðalög og lífið á farandsfæti einkennist í hugum leikmanna af svita, þrengslum og óþægindum. Ólafur brýtur þær hugmyndir á bak aftur og segir að rúturnar séu í dag líkastar íbúðum. „Þær eru ekkert rosalega sveittar, þær eru bara svolítið næs. Þær eru á tveimur hæðum og nóg pláss fyrir alla,“ segir hann og bætir við: „við erum með tvær.“ Hvað varðar spurningar um rokklífernið má dæma af orðum Ólafs að hópurinn sé í rólegri kantinum. „Það er ekkert sérstaklega mikið rokk og ról í okkur. Við erum svolítið bara að spila spil og fara á trúnó. Það er ekkert rosa mikið partý. En það kemur alveg fyrir. En vissulega erum við sveitt,“ segir hann og skellihlær.

Sambönd mikilvægari en hæfileikar

„Ef mér finnst ég mega hreykja mér af einhverju þá er það að hafa gott fólk í kringum mig. Ég get valið gott fólk. Ég er búinn að vera með sama fólkið mjög lengi og byggi mikið á samböndum, finnst þau jafnvel mikilvægari en hæfileikar,“ segir Ólafur og útskýrir: „Ekki það að fólkið sé ekki gríðarlega hæfileikaríkt, en ég myndi alltaf velja einhvern sem er kannski aðeins lélegri í að spila á eitthvað hljóðfæri en passar betur inn í hópinn, frekar en einhvern sem er lærðari og betri. Alltaf.“ Hann bætir enn fremur við: „Þegar þú býrð með fimmtán manns inni í rútu þá er þetta eiginlega einn af mikilvægustu hlutunum, að hafa ekki einhvern rasshaus með sér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Arnalds hlaut hin virtu BAFTA-verðlaun 2016.

Tilnefndur ásamt Hans Zimmer

Ólafur hlaut á dögunum tilnefningu til BRIT-verðlaunanna, sem eru ein stærstu tónlistarverðlaunin þar í landi. Ólafur er tilnefndur í flokki klassískra verka en meðal annarra tilnefndra er kvikmyndatónskáldið Hans Zimmer sem hlýtur tilnefningar í þeim flokki fyrir þrjú verk af fimm sem tilnefnd eru. „Í algjörri hreinskilni þá vissi ég ekki hvort að þetta væru merkileg verðlaun fyrr en allir fóru að hringja í mig í dag,“ segir Óli léttur. „Ég myndi ekki segja að líkurnar væru endilega með mér en þetta er upphefð og auðvitað gaman að vera settur á sama stall og Hans Zimmer sem ég lít mikið upp til.“

Laumaði geisladisknum aftur í vasann

„Ég hitti hann einu sinni, fór í heimsókn í stúdíóið hans og ég var mjög upp með mér að hitta hann. Ég er mikill aðdáandi hans og sérstaklega þegar ég var yngri,“ segir Ólafur. „Ég var búinn að undirbúa mig og búinn að taka með mér geisladisk, ég ætlaði sko að gefa honum geisladiskinn minn,“ segir hann. „Svo þegar ég mæti upp í stúdíó þá situr hann þarna í tölvunni og setur höndina svona upp í loft, eins og til að segja: „Bíddu aðeins, ég er ekki alveg reddí fyrir þig.“ Hann klárar að skrifa tölvupóstinn og segir svo: „Fyrirgefðu ég var að klára hérna að sinna skólamálum sonar míns.“ Ólafur segist þá hafa rekið augun í klæðnað tónskáldsins. „Síðan er hann í bol sem er með mynd af segulbandsspólu og þar stendur „No, I don‘t want to listen to your demo,“ eða „Nei, ég vil ekki hlusta á músíkina þína,““ rifjar Óli upp og skellihlær. „Ég laumaði geisladisknum aftur í vasann. En hann sýndi mér stúdíóið sitt.“

Aðspurður hvernig hann ætli sér eyða síðustu dögunum á landinu í bili svarar hann: „Ég er að útrétta og klára að gera allt sem ég þarf að gera áður en ég fer, reyna að hitta fjölskyldu og vini eitthvað og svo mun ég hverfa á braut í lengri tíma.“

Ólafur Arnalds var föstudagsgestur Síðdegisútvarps Rásar 2 þann 4. apríl 2018. Forsíðumyndin er fengin að láni af Facebook-síðu Ólafs Arnalds.

Tengdar fréttir

Tónlist

Ólafur Arnalds frumflutti nýtt lag í Vikunni

Tækni og vísindi

Ólafur Arnalds semur fyrir ómannlega dansara

Menntamál

Einelti - Ólafur Arnalds vann úr því með hjálp

Innlent

Ólafur Arnalds opnar sig um einelti