Erum að nálgast ruslið 2008

25.08.2017 - 16:30
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Heimilisúrgangur er að komast á það stig þegar hann var mestur 2008. Nú er stefnt að því að aðeins verði urðuð 10 prósent af heimilisúrgangi 2030 og að eftir tvö ár verði helmingur heimilissorps endurunninn.

 Færiböndin í Sorpu í Gufunesi ganga allan daginn. Flytja heimilissorpið til þjöppunar sem síðan er urðað á Álfsnesi. Á leiðinni á bandinu kippa seglar járninu úr sorpinu. Það hefur komið fram í fréttum síðustu daga að launin eru að verða svipuð og þau voru fyrir hrun og atvinnuleysið er nánast horfið. Sorpið segir þessa sögu þó að við höfum ekki enn náð því magni af sorpi sem fór í tunnurnar rétt fyrir hrun.

Grófur úrgangur eykst mest

Svokallað heimilissorp eða sorp sem kemur frá heimilum og fyrirtækjum var komið í 207 þúsund tonn 2008 en hrapaði niður í 131 þúsund tonn árið eftir eða um tæp 40 prósent. Við erum að ná 2008 ástandinu. 2015 var heimilissorpið komið í 193 þúsund tonn. En á meðan heimilissorpið eykst jafnt og þétt tekur annar úrgangur stökk sem segir líka sína sögu um neysluna og þensluna í samfélaginu. Jón Ólafur Vilhjálmsson stöðvarstjóri Sorpu segir að ákveðnir flokkar aukist meira en annar úrgangur. Það sé ekki úrgangur sem tengist einkaneyslu nema að hluta til heldur svokallaður grófur úrgangur.

„Hann saman stendur af milliveggjum, milliveggjaefni, húsgögnum, innréttingum, dýnum sem reyndar koma frá heimilum. Það er nokkuð um það að fólk sé að endurnýja innréttingar í íbúðum en samt ekki í neinum mæli miðað við árin fyrir 2008. Það er mikið um að það sé verið að breyta húsnæði í hótel og aðra starfsemi. Það verður töluverður úrgangur við það,“ segir Jón Ólafur.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Guðmundur Ólafur Vilhjálmsson stöðvarstjóri.

Þessi svokallaði grófi úrgangur hefur aukist það sem af er þessu ári um 48 %. jókst um 46 % allt árið í fyrra og um 38%  2015. Annar úrgangur sem hefur aukist er bylgjupappi. hefur aukist það sem af er þessu ári um fjórðung, 23% í fyrra og 14 af hundraði.

„Já, bylgjupappi er mæling á kaupum á heimilistækjum og öllum stærri tækjum því það er pappi utan um um hverja þvottavél og flatskjá . Líka utan um flísar og innréttingar og það er óhemju mikið af því,“ segir Jón Ólafur.

Erum að nálgast 2008

Úrgangur er af ýmsu tagi.  Heildar úrgangur samkvæmt tölfræðinni nam 850 þúsund tonnum árið 2015. Inni í þeirri tölu eru jarðefni, uppgröftur brotajárn og fleira. Eins og fyrir segir nam heimilissorpið 193 þúsundum tonnum.  74 þúsund tonn voru flokkuð og endurnýtt en eftir stóðu 119 þúsund tonn sem voru urðuð. Reyndar voru af þessu 6 þúsund tonn brennd í sorpeyðingarstöð Suðurnesja. Hlutfallið af heimilissorpi sem nú er urðað er um 58%. Á öllu landinu er að finna 22 urðunarstaði.  Samkvæmt reglum sem ESB er að vinna er stefnt að því lönd innan evrópska efnahagssvæðisins setji sér það markmið að 2030 verði aðeins 10% af heimilissorpi urðað. Guðmundur B Ingvarsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, útilokar ekki að þessu markmiði verði náð.

„ Það eru líka önnur markmið sem við verðum að ná á á leiðinni. Það er stefnt að því að draga úr urðun lífræns úrgangs og hluti af honum er heimilisúrgangur. Svo er í gildi markmið um að auka endurvinnslu  heimilsúrgangs. Allt miðar þetta að því að því að dregið verði úr urðun,“ segir Guðmundur.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Guðmundur B. Ingvarsson sérfræðingur hjá Umhverfistofnun

Það að draga úr urðun sorps kallar á meiri flokkun og endurvinnslu sorps. Endurvinnsluhlutfall heimilsúrgangs 2015 var 28% en stefnt er að því að það verði komið í 50% 2020 og í 65 af hundraði 2030. Það eru aðeins tvö ár í 2020. Ekki eru tilbúnar tölur um endurvinnsluhlutfalli í fyrra  og  í ár.

„Við þurfum að halda vel á spöðunum til að ná þessu markmiði,“ segir Guðmundur.

Nánar er fjallað um þetta mál í Speglinum.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi