Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eru tilbúin ef veirufaraldur og gos verða samtímis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikið hefur mætt á sjálfboðaliðum björgunarsveitanna og Rauða krossins síðustu vikur, enda hefur veður verið með eindæmum slæmt. Óvissustig er í gildi vegna hættu á að Wuhan-kórónaveiran berist hingað til lands og sömuleiðis vegna landriss og tíðra jarðskjálfta við Grindavík. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins og Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, segja sitt fólk í viðbragðsstöðu og tilbúið verði gos og veirufaraldur á sama tíma. Rætt var við þau í Kastljósi í kvöld.

Fimm hafa látið lífið og á annan tug hlotið alvarleg meiðsl í slysum undanfarnar vikur sem rekja má til tíðarfars. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út að meðaltali annan hvern dag og Rauði krossinn hefur 22 sinnum opnað fjöldahjálparstöðvar. Sú stærsta síðan í Vestmannaeyjagosinu var opnuð í Reykjanesbæ þegar mikið óveður skall á sunnudaginn 13. janúar og fjöldi flugfarþega varð strandaglópar á Keflavíkurflugvelli. 

Tæplega 3.000 sjálfboðaliðar að störfum

Þór segir að björgunarsveitarfólk hafi verið fljótt að jafna sig eftir annirnar og að þau séu nokkuð keik núna. Tæplega 2.000 sjálfboðaliðar björgunarsveitanna hafa tekið þátt í ýmsum björgunaraðgerðum síðustu vikur. Sömu sögu er að segja af sjálfboðaliðum Rauða krossins. Um 750 þeirra sinna neyðarvörnum og segir Brynhildur að álagið hafi dreifst ágætlega á mannskapinn og að þau séu tilbúin í þau verkefni sem gætu verið fram undan. 

Hvað Wuhan-kórónaveiruna varðar þá eru björgunarsveitirnar hluti af viðbragðsáætlunum og hafa mismunandi hlutverk, til dæmis að vera varalið sjúkraflutninga, lögreglu, við lokanir vega og við gæslu við mikilvægar stofnanir, að sögn Þórs. 

Íhuga að koma upp sóttkví

Rauði krossinn hefur tekið virkan þátt í undirbúningi með stjórnvöldum vegna óvissustiganna tveggja. Verið er að kanna möguleikann á því að á vegum hans verði komið á fót sóttkví, sem hægt yrði að nýta ef Wuhan-kórónaveiran myndi berast hingað til lands. „Það er svona algjört síðasta úrræði en við þurfum að vera tilbúin undir allt og það er verið að hugsa allar mögulegar sviðsmyndir og hvað geti komið upp og hvernig við bregðumst við,“ segir Brynhildur.

Það er ljóst að ef bæði veiran og gos við Grindavík kæmi á sama tíma yrði mikið að gera hjá viðbragðsaðilum eins og Rauða krossinum og björgunarsveitum. „Það ganga allir út frá því að veiran muni koma en hversu alvarlega er alveg spurning. Fólk hefur náð sér af henni, það eru ekki svo mörg dauðsföll fyrir utan Kína. Þróunin er frekar hæg, við erum bara að fylgjast með og ef það er haldið rétt á spöðunum og ef allir sinna þeim vörnum sem gefnar hafa verið út, að þvo hendur nota spritt þá getum við vonandi komið sem mest í veg fyrir mikla útbreiðslu,“ segir hún. 

Þór segir það miklu máli skipta að útbreiðsla veirunnar verði hæg en að ef þetta komi á sama tíma, veirufaraldurinn og gos, þá verði nóg að gera.

Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.