Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eru til einhverjar séríslenskar jólahefðir?

Mynd: Arnþór Snær Sævarsson. / Flickr

Eru til einhverjar séríslenskar jólahefðir?

28.11.2017 - 12:53

Höfundar

Hvaðan kemur laufabrauðið? Hvaða jólahefðir eru vinsælastar og hvaðan koma þær? Nanna Rögnvaldardóttir matgæðingur og matreiðslubókahöfundur veit sitthvað um málið.

Nanna hefur gefið út 20 bækur um matreiðslu, með uppskriftum og fróðleik um allt milli himins og jarðar sem viðkemur mat. Nanna ræddi um jólahefðir Íslendinga og uppruna þeirra í Mannlega þættinum á Rás 1.

Mynd með færslu
 Mynd: Bókmenntahátíð í Reykjavík
Nanna Rögnvaldardóttir.

Hún segir að laufabrauðið geti sannarlega kallast íslenskt, sem og hefðin þegar fjölskyldur koma saman og skera út laufabrauð. Hún segir að það sé með laufabrauðshefðina, eins og aðrar jólahefðir, að það sé algengt að hver fjölskylda hafi sínar hefðir og stundum geti átt sér stað miklar rökræður þegar tvær fjölskyldur blandast saman og hefðirnar rekast á.

„Margir eru svo fastir í hefðum og geta ekki hugsað sér að hlutirnir séu öðruvísi en þeir voru alltaf hjá mömmu, eða því sem þeir hafa alltaf vanist,“ segir Nanna. Henni finnst ágætis lausn, eins og sumir hafa gert, að kasta bara gömlu hefðunum og búa til nýjar þegar nýjar fjölskyldur verða til.

Nanna segir að enn sé hamborgarahryggurinn vinsælasti jólamaturinn á Íslandi. Aðspurð um hvað hún sé sjálf með í jólamatinn segist hún undanfarin ár hafa stungið af til útlanda yfir jólin, því fari það bara eftir því hvar hún er stödd hvað er í jólamatinn. Engu að síður heldur hún enn í ýmsar hefðir fyrir jólin, eins og laufabrauðsgerð með fjölskyldunni. Svo bakar hún ávaxtaköku fyrir jólin og hún lætur verka fyrir sig hangikjöt og svínakjöt, því hún heldur enn jólaboð nokkrum dögum fyrir jól.

Smákökurnar danskar

Flestar smákökutegundir sem bakaðar eru hérlendis eiga uppruna sinn að rekja til Danmerkur. Eins koma mikið af hefðum tengdum jólamatnum þaðan, til dæmis svínakjötið og ris a la mande. Nanna segir að sá grautur sé kominn frá Danmörku þrátt fyrir franskt nafn, líklega hafi það komið til vegna þess að það hafi þótt fínna en að finna danskt nafn á hann.

Eina alíslenska matarhefðin á jólunum sem Nanna man er rjúpan. Hún þekkir ekki til þess að rjúpa sé jólamatur í öðrum löndum. Rjúpan var jafnvel kölluð matur fátæka fólksins, það er þegar fólk hafði ekki efni á öðru þá hafi það haft rjúpu í matinn, en Nanna er ekki viss um að svo hafi verið, amk. ekki eingöngu. Til dæmis hafi verið uppskrift að rjúpum með brúnuðum kartöflum í Kvennablaðinu árið 1898 og markhópur þess blaðs hafi ekki verið þeir sem minna höfðu á milli handanna.

Viðtalið við Nönnu má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.