Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Eru í basli með enska tungu

27.11.2014 - 22:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Nýtt málumhverfi hefur þróast í Háskóla Íslands þar sem íslenska og enska eru notaðar jöfnum höndum. Stór hluti nemenda og kennara á í basli vegna þessa og það er feimnismál, segir prófessor.

Mikill meirihluti námskeiða við Háskóla Íslands er kenndur á íslensku þó svo þeim fari fjölgandi námskeiðunum sem kennd eru á ensku.  Hins vegar er í flestum deildum meirihluti námsefnis á ensku og vaxandi kröfur gerðar til kennara um að birta rannsóknir sínar á ensku.

Prófessorarnir Hafdís Ingvarsdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir hafa kannað enskunotkun í skólanum og ræddu bæði við nemendur og kennara. Enskukennsla í grunn- og framhaldskólum virtist ekki vera góður undirbúningur undir þá akademísku ensku sem notuð er í háskólanum. 

„Ég bjóst alveg við náttúrlega að það væri stökk að koma í háskóla eins og það var en að fara beint út í að lesa akademískan texta á ensku það tók tíma að venjast því,“ segir Andri Yrkill Valsson, nemi í stjórnmálafræði á öðru ári.  Aðspurður hvort hann og samnemendur hans hafi eitthvað rætt þetta svarar hann játandi.  „Já, sérstaklega þegar á að flytja fyrirlestra á ensku. Fólk er bara eiginlega hrætt við af því þeim finnst það ekki vera nógu öruggt.“

Dæmi eru um að nemendur hafi hugleitt að hætta námi vegna tungumálaörðugleika og kennarar hafa líka lent í vandræðum. „Þá eru bara 60 prósent kennara sem telja sig ekki eiginlega geta skrifað þá ensku sem þeir vildu skrifa það er að segja ekki það fræðimál sem þeir vildu hafa vald á,“ segir Hafdís. „Þetta er bara vandamál en þetta er feimnismál. Við viljum vera svo góð í ensku sjálfsmyndin er að við erum rosalega góð og einn prófessorinn sagði það er fólk út um allan háskóla að láta þýða fyrir sig greinarnar.“

Fræðimenn víða á Norðurlöndunum hafa sömu sögu að segja og því hafa ritver verið sett upp við alla háskóla þar sem kennarar og framhaldsnemendur geta fengið aðstoð við ritun fræðigreina á ensku. Sama þyrfti að eiga sér stað hér á landi. Endurskoða þurfi málstefnu Háskóla Íslands og endurskilgreina stöðu enskunnar í aðalnámskrá. „Það þarf auðvitað að breyta áherslunum í framhaldsskólanum og búa þau undir að lesa fræðitexta,“ segir Hafdís.