Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað

16.09.2013 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað milli ára í fyrsta skipti frá árinu 2008. Í ársbyrjun voru 21.446 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi, eða 6,7 prósent mannfjöldans.

Í skýrslu Fjölmenningarseturs kemur fram að jafnmargar konur og karlar með erlent ríkisfang búi nú á landinu, árið 2008 voru yfir 5.000 fleiri karlar en konur hér.

Átta prósent allra barna á Íslandi upp að fjögurra ára aldri teljast til annarrar kynslóðar innflytjenda. Flestir erlendir ríkisborgarar eru frá Póllandi, en Pólverjar eru þrjú prósent landsmanna.

Hæsta hlutfall innflytjenda er á Vestfjörðum og Suðurnesjum. Langflestir eru þó til heimilis á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysi meðal Pólverja er í kringum fimmtán prósent, og eru þeir 56 prósent allra útlendinga á atvinnuleysisskrá.

Þá kemur fram í skýrslunni að þriðja hver kona sem leitaði í Kvennaathvarfið á síðasta ári var erlendur ríkisborgari.

Fjármagn sem sett er í málefni innflytjenda hefur minnkað mikið frá 2008, þegar tæplega 21.000 krónum var varið í hvern erlendan ríksiborgara samanborið við 9.000 krónur nú.