Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Erlendir ferðamenn vita ekki af Holuhrauni

03.08.2016 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minni aðsókn hefur verið í ferðir inn að Holuhrauni í sumar en búist var við. Erlendir ferðamenn virðast almennt ekki vita um hraunið og upplýsingar um það hafa ekki skilað sér að fullu í ferðabækur.

Það er aðeins rúmt ár frá því fyrst var leyfilegt að ganga upp á Holuhraun. Þá voru merktar tvær gönguleiðir um hraunið og nú bjóða landverðir daglega upp á gönguferðir þar.

Ekki eins mikið aðsókn og búist var við

Aðsóknin að Holuhrauni hefur þó ekki verið eins mikil og búist var við, segir Hrönn Guðmundsdóttir, hálendisfulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði. „Það eru ótrúlega margir, sérstaklega erlendir ferðamenn, sem vita ekki af hrauninu þegar þeir koma inn á svæðið,“ segir hún. „En við gerum okkar besta til að segja fólki frá hrauninu þannig að aðsóknin er meiri en í fyrra en kannski ekki eins mikil og maður hefði getað búist við."

Markaðssetningin tekur tíma

Hrönn segir að í raun þurfi þetta ekki að koma á óvart. Það taki langan tíma að markaðssetja nýtt fyrirbæri eins og Holuhraun. Upplýsingar um hraunið hafi enn ekki skilað sér að fullu inn í bækur fyrir ferðamenn og þá taki tíma fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að breyta sínum ferðum. Það sé þó sífellt að aukast og ferðaþjónustufyrirtæki í Mývatnssveit fari inn að Holuhrauni í sínum daglegu ferðum þarna inn á hálendið. Þá upplýsi landverðirnir ferðafólk, sem þeir hitti úti á vegum og á tjaldstæðinu við Öskju, um Holuhraun.  

Göngufólk virðir merkingar á hrauninu

Og hún segir að göngufólk virði merkingar á Holuhrauni. „Enda kannski ekki að undra þar sem hraunið er bara mjög erfitt yfirferðar og ekkert sérlega lokkandi að fara útfyrir gönguleiðirnar. Við lögðum þær á stöðum þar sem hraunið er best yfirferðar og þær hafa svolítið verið lagaðar til. Þannig að er ekkert sérlega lokkandi að fara útfyrir þær. Hraunið er bara svo hvasst og úfið," segir Hrönn.