Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Erlend tengsl við CLN-málið

13.09.2018 - 08:36
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Ferill svokallaðast CLN-máls er orðinn langur. Þrír fyrrum yfirmenn Kaupþings eru ákærðir fyrir umboðssvik eða hlutdeild í þeim. Íslenska sakamálið snýst um lánveitingar Kaupþings. En það hafa einnig spunnist erlend málaferli og málarekstur tengdur ráðgjöf Deutsche Bank í viðskiptunum sem lánin fóru í.

CLN sagan í hrunskýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 

Ein af sögunum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið snýst um Kaupþing og Deutsche Bank. Hvernig Kaupþing, að ráðum Deutsche, lánaði um 500 milljónir evra, 70 milljarða króna, til tveggja félaga í eigu hluthafa og stórra viðskiptamanna í Kaupþingi. Yfirlýstur tilgangur var að hafa áhrif á skuldatryggingar bankans.

Kært fyrir lánveitingar vegna skuldatryggingaviðskipta 

Embætti sérstaks saksóknara ákærði svo Sigurð Einarsson, Hreiðar Má Sigurðsson og Magnús Guðmundsson fyrir lánveitingarnar. Þetta er svokallað CLN-mál – kallað eftir ,,credit linked notes” eða lánshæfum skuldabréfum sem voru liður í lánasögunni. Líkt og í fleiri bankamálum var ákært fyrir umboðssvik.

CLN-málið fram og aftur í dómskerfinu

Málið kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í desember 2015 sem sýknaði síðan hina ákærðu. Hæstiréttur ómerkti sýknudóminn og taldi saksóknara þurfa að rannsaka betur einn þátt málsins. Nú hefur svo Héraðsdómur vísað málinu frá því sú rannsókn sé ekki nægilega ítarleg. Þeim úrskurði verður skotið til Landsréttar.

Það sem Hæstiréttur taldi að ætti að rannsaka betur er samkomulag sem Deutsche Bank gerði við þrotabú gamla Kaupþings og Tortólufélögin tvö sem fengu lánin, Chesterfield og Partridge.

Tvær sögur: lánveitingarnar og aðkoma Deutsche Bank

Hér fer tveimur sögum fram: annars vegar það sem ákæran snerist um, það er lánveitingar Kaupþings til Tortólufélaganna, í eigu Ólafs Ólafssonar næst stærsta hluthafa Kaupþings, breska umsvifamannsins Kevin Standfords og fleiri erlendra viðskiptamanna Kaupþings. Hins vegar er svo þáttur Deutsche Bank í viðskiptunum sem lánað var til.

Í fyrra gat Spegillinn í fyrsta skipti sagt nokkuð nákvæmlega frá viðskiptum Deutsche Bank og Kaupþings. Þá einnig að slitastjórn Kaupþings hafði í mörg ár reynt að fá Deutsche Bank til að greiða aftur þær rúmlega 500 milljónir evra sem fóru til bankans vegna viðskiptanna. Skiptastjórar Tortólufélaganna tveggja hafa líka herjað með kröfur á Deutsche Bank.

Áhrif samkomulagsins á CLN-málið

Eftir að þráast lengi við gafst Deutsche Bank upp og greiddi Kaupþingi og félögunum tveimur samtals 425 milljónir evra. Þegar þetta kom fram töldu verjendur hinna ákærðu í CLN-málinu að þetta breytti sögunni – Kaupþing hefði fengið mestan hluta lánanna endurgreiddan, ekkert tjón, svo það væri enginn ástæða til ákæru fyrir lánveitingarnar.

Forsendur ákærunnar voru hins vegar þær að meint lögbrot hefðu verið framin þegar lánið var veitt. Því skipti síðari framvinda ekki máli. Hæstiréttur vildi hins vegar fá nánari skýringar á hvernig var í pottinn búið og hlut Deutsche Bank. Héraðsdómur telur greinilega að þar vanti enn upp á.

Deutsche Bank og samkomulagið

Burtséð frá ákæruatriðunum þá veitir CLN-málið áhugaverða innsýn inn í starfsemi Deutsche Bank. Eins og Spegillinn hnykkti á í umfjöllunni í fyrra þá vildi Deutsche Bank greinilega ekki að sagan af þessum viðskiptum yrði sögð fyrir rétti í London. Vildi því frekar greiða Kaupþingi en rekja þá sögu fyrir dómi.

Með þessu ráðabruggi hjálpaði Deutsche Kaupþingi að villa um fyrir markaðnum og tók auk þess stöðu í viðskiptunum sem hugsanlega samræmdist ekki því sem vænta mátti. Hvort þar í fólust meint lögbrot er ekki hægt að dæma um þar sem yfirvöld í Bretlandi hafa ekki rannsakað málið. En alla vega ljóst að þýski bankinn vildi grafa söguna.

Mál í London til að skýra aðkomu Deutsche

En ráðabrugg Kaupþings og Deutsche Bank hefur orðið tilefni til kröfumála erlendis. Skiptastjórar Tortólufélaganna tveggja, fóru í mál í London við Deutsche Bank um afhendingu gagna, vildi fá betri upplýsingar um viðskiptin og vann það mál 2012. Deutsche neyddist því til að afhenda gögn sem skiptastjórarnir notuðu síðan í kröfugerð sinni gegn bankanum.

Nýtt mál á Jómfrúreyjum: Stanford gegn skiptastjórum

Í sumar var kveðinn upp dómur á Santa Lúsíu, einni Jómfrúreyja, í máli sem Kevin Stanford höfðaði gegn skiptastjórum Tortólufélaganna. Stanford höfðaði það mál sem eigandi Chesterfield. Fyrst Chesterfield hefði fengið þetta fé frá Deutsche, 106 milljónir evra, ætti hann sem eigandi félagsins að fá þetta fé. Í dómnum kemur fram að já, Kaupþing borgaði fjárfestinguna, ekki Stanford. En sama samt, Stanford taldi sig eiga þarna kröfu. Hann tapaði málinu.

Ein hlið CLN málsins: neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings

Þessi mál hafa öll veitt áhugaverða innsýn inn í starfshætti bæði Kaupþings og Deutsche Bank. Með því að borga virðist Deutsche ætla að grafa söguna um sinn átt í skuldatryggingarviðskiptunum. CLN-málið er enn fyrir dómi. Og þar hefur meðal annars komið fram að hluti neyðarláns Seðlabankans til Kaupþings hrundaginn 6. október 2008, fyrir tæpum tíu árum, fór í lánafléttuna til Tortólufélaganna tveggja.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir