Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erjur í seinni hluta G7 fundar

09.06.2018 - 13:22
Erlent · G7
epa06794887 (L-R) European Council President Donald Tusk, Britain's Prime Minister Theresa May, German Chancellor, Angela Merkel, US President Donald J. Trump and Canadian Prime Minister, Justin Trudeau prepare for the Family Portrait at the G7
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Ekki hefur verið leyst úr erjum G7 ríkjanna á tveggja daga leiðtogafundinum sem enn stendur yfir í Quebec í Kanada. Leiðtogana greinir á um nokkra hluti og viðskiptastríð vofir enn yfir eftir að Bandaríkjaforseti ákvað að setja tolla á innflutt ál og stál frá þjóðum sem yfirleitt teljast til vinaþjóða Bandaríkjanna.

Ekki er víst að leiðtogarnir geti komið sér saman um sameiginlega yfirlýsingu eftir fundinn, líkt og hefð er fyrir. Í gær sagðist Donald Trump þó bjartsýnn á að það myndi takast. Hann mætti síðastur leiðtoganna til fundarins og viðbúið að hann fari einnig fyrstur, áður en fundarhöldum lýkur. Ráðgjafar hans munu klára fundinn í dag í fjarveru forsetans en sjálfur er hann á leið til Singapúr þar sem hann hittir fyrir Kim Jong-un, einvald Norður-Kóreu, á sögulegum fundi næsta þriðjudag.

Í gær var haft eftir Emmanuel Macron, forseta Frakklands, að enn væri margt órætt varðandi viðskipti ríkjanna. Öll spjót beinast að Bandaríkjunum í þeim viðræðum eftir að stjórnvöld í Washington ákváðu að setja tolla á ál og stál frá Evrópusambandinu, Kanada og Mexíkó.

Milliríkjaviðskipti eru þó ekki það eina sem leiðtogana greinir á um. Loftslagsbreytingar, samskipti við Íran og málefni Palestínu og Ísraels eru einnig þar á meðal. Búist er við að fundarhöldum ljúki fyrir klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma.