Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Erilsöm helgi: 252 lögreglumál á Suðurlandi

Lögreglubílar á bílastæði
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Alls rötuðu 252 mál í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi um nýliðna verslunarmannahelgi, frá 4. til 7. ágúst. Þrjár líkamsárásir og tvö kynferðisbrot voru þar á meðal. Þetta segir í Facebook færslu frá lögreglunni á Suðurlandi í kvöld. Helgin hafi verið erilsöm enda mikill fjöldi fólks sem sótti suðurlandið heim. Þá telur lögregla upp 15 minniháttar umferðaróhöpp, 28 ökumenn sem voru stöðvaðir undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og 35 ökumenn sem voru kærðir fyrir hraðakstur.

Lögreglan er almennt ánægð með helgina, sem gekk vonum framar þrátt fyrir mikinn eril, fjölda mála og fjölda fólks í umdæminu, segir í færslu hennar. Segja megi að flest tjaldstæði hafi verið full um helgina þar sem Suðurlandið hafi skartað sínu fegursta í sumarblíðunni stærstan hluta helgarinnar.