Erill á snyrtistofum

23.03.2020 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: Sarah Pflug - burst.shopify.com/Creative commo
Snyrtistofur eru meðal þeirra fyrirtækja sem þurfa að skella í lás á miðnætti vegna hertra reglna um samkomubann. Eigandi snyrtistofu segir vanta upplýsingar um næstu skref.

Á þeim snyrtistofum á Akureyri sem fréttastofa ræddi við í dag var dagurinn hér um bil fullbókaður og sums staðar gott betur.

Linda Rós Magnúsdóttir, eigandi Karisma snyrtistofu segir daginn verða langan: „Við erum alveg á haus og við reynum að pakka vikunni á þennan dag svo við verðum eitthvað fram eftir“. Hún segist hafa vitað í hvað stefndi en þau hafi samt talið að þau myndu fá lengri tíma til að undirbúa lokun. „Við vorum búin að hugsa að við fengjum þessa viku, en maður lætur þetta ganga, þetta reddast allt.“

Það sama var uppi á teningnum á Abaco heilsulind. Kristín Hildur Ólafsdóttir, eigandi, segist hafa hringt í þá sem áttu bókað í vikunni og boðið þeim að færa tímann til dagsins í dag. Hún segir hafa komið sér á óvart að um 70% þáðu það.

Mikið um afbókanir

Hún segir um tvær vikur síðan hún hafi tilkynnt starfsfólki sínu um að það væri ekki spurng hvort heldur hvenær það þyrfti að loka vegna faraldursins. Þá hafi ásókn stórminnkað síðustu vikuna og mikið um afbókanir. Átta manns komu í nudd í síðustu viku en Kristín segir þau venjulega um 20-30, jafnvel fleiri.

Vantaði leiðbeiningar

Hún segir þessa hópa sem vinna í svona mikilli nánd við aðra í raun hafa gleymst aðeins, lítið hafi verið um leiðbeiningar til þeirra þegar samkomubannið var sett á og hver stofa hafi í raun þurft að útfæra sínar eigin reglur. Á Abaco byrjuðu starfsmenn til að mynda að vera með hanska og grímur. 

Öðruvísi en í hruninu

Kristín viðurkennir að stressið sé til staðar. Það þýði þó ekkert annað en að sýna ró og taka einn dag í einu. Óróleikinn sé líka öðruvísi heldur en í hruninu því það sé vitað að þetta ástand nú tekur enda. Hún segist þakklát fyrir aðgerðir stjórnvalda til að hjálpa fyrirtækjum en að takmarkaðar upplýsingar hafi fengist varðandi næstu skref. Hún bíði því eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun. 

 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi