Erfitt val á ráðherrum

30.11.2017 - 12:24
Mynd: Skjáskot / RÚV
Tillaga um hverjir verða ráðherrar Framsóknarflokksins í nýrri ríkisstjórn var samþykkt samhljóða á þingflokksfundi í hádeginu, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og verðandi samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Auk hans verða ráðherrar þau Lilja Alfreðsdóttir sem verður menntamálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason sem verður félagsmálaráðherra.

„Að sjálfsögðu er einfaldlega staðan svo góð hjá mér að þingflokkurinn er ákaflega vel skipaður og allir sem þar skipa gætu gegnt hvaða embætti sem væri. Þannig að þetta var erfitt val,“ segir Sigurður Ingi. 

Þórunn Egilsdóttir verður þingflokksformaður áfram og Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar.

Tveir þingmenn Vinstri grænna sætta sig ekki við stjórnarsáttmálann en Sigurður Ingi segir það ekki hafa áhrif á stjórnarsamstarfið.

„Það hefur legið fyrir alveg frá því við hófum þessar viðræður að tveir þingmenn væru ekki sammála því að taka þátt í þessum viðræðum þannig að það kom í sjálfu sér ekki á óvart og hefur ekki áhrif á samstarfið, enda höfum við átt mjög gott samtal og samstarf, formennirnir þrír, þessar tvær vikur sem þetta hefur verið í undirbúningi.“ Sigurður Ingi óttast alls ekki að fleiri þingmenn stjórnarflokkanna hlaupi út undan sér.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru eftirtaldir

 • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
 • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra
 • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
 • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
 • Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
 • Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
 • Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra
 • Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra
 • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Fréttin hefur verið uppfærð

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi