Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erfitt að tryggja öryggi mæðra og barna

24.04.2018 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Það er krefjandi verkefni að tryggja öryggi mæðra, nú þegar ljósmæður hafa hætt að sinna heimaþjónustu. Þetta segir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. Meðgöngu- og sængurlegudeild muni fyllast fljótt.

Ljósmæður sem sinnt hafa heimaþjónustu tilkynntu um helgina að þær hygðust hætta því þar til nýr samningur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands hefur verið undirritaður. Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir því við heilbrigðisstofnanir að þær sinni þessari þjónustu á meðan og tryggi öryggi mæðra og barna.

„Það er bara mjög snúið verkefni, sem við erum að reyna að sjá í gegnum,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. 

„Við munum náttúrulega þurfa að forgangsraða þeim konum sem liggja inni á meðgöngu- og sængulegudeildinni hjá okkur, þannig að þar verða fyrst og fremst inniliggjandi þær konur sem þurfa á mestri þjónustu að halda. Það mun væntanlega fyllast á þeirri deild mjög fljótt. Þannig að það verður bara dagaspursmál hvenær hún verður fullsetin. En en það þýðir líka að við munum þurfa að útskrifa hraustari konur með hraustari börn fyrr heim og vísa þeim til heilsugæslunnar,“ segir Sigríður.

Þetta eigi þó ekki að hafa áhrif á aðrar deildir sjúkrahússins.

Veldur þessi staða áhyggjum? „Það veldur mér alltaf áhyggjum þegar ekki er hægt að reka heilbrigðisþjónustu vegna kjaradeilna. Ég get ekki sagt það nógu skýrt hvað það er brýnt að samningsaðilar gangi til samninga og ljúki þeim,“ segir Sigríður.

Telurðu að öryggi mæðra og verðandi mæðra verði á einhvern hátt stofnað í hættu með þessu? „Það er náttúrulega okkar markmið að svo verði ekki en þetta er náttúrulega krefjandi verkefni, það er alveg ljóst,“ segir Sigríður.