Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Erfitt að rannsaka heimili fyrir fullorðna

14.12.2018 - 19:33
Mynd:  / 
Dómsmálaráðherra segir að það yrði annmörkum háð að rannsaka vistheimili þar sem fullorðið fólk dvaldi og sætti ef til vill harðræði. Skýrslu um uppgjör sanngirnisbóta til þeirra sem dvöldu á vistheimilum sem börn var skilað til ráðherra í dag.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir að sér hafi fundist takast afskaplega vel til að vinna málið með þessum hætti. Heildarbætur námu þremur milljörðum, sem er margfalt það sem lagt var upp með.

„Málið óx að vöxtum, mikið, og kannski þurfti það nú ekki að koma á óvart þegar menn fóru að rannsaka fleiri mál,“ segir Sigríður. „Stjórnvöld tóku bara þá ákvörðun að reyna að draga sem mest fram.“

Spurð hvort rannsaka þurfi fleiri heimili þar sem börn kunni að hafa verið vistuð segir Sigríður að það liggi fyrir að börn hafi verið og séu vistuð á alls konar heimilum um allt land. „Hvort það eigi að skoða það aftur í tímann með jafnumfangsmiklum hætti og þarna var um að ræða, það er auðvitað álitaefni. Ég tel að það gæti jafnvel verið ógjörningur í einhverjum tilvikum, eins og bent er á í þessari skýrslu – þau heimili eru auðvitað einkaheimili í einhverjum tilvikum.“

Hún segir að þessi mál séu í allt öðrum farvegi í dag – til dæmis sé nýbúið ða samþykkja lög sem feli umboðsmanni Alþingis að hafa eftirlit með nauðgungarvistun.

„Mér finnst kannski mest um vert að menn horfi til framtíðar, hugi að þessum heimilum og þessum úrræðum í dag – hvernig þessi heimili eru í dag – og við eigum auðvitað að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að réttindi þeirra einstaklinga sem dvelja á þessum heimilum eða stofnunum séu í samræmi við þau mannréttindi sem þau eiga að njóta.“

Spurð hvort rannsaka þurfi heimili þar sem fullorðnir kunna að hafa verið vistaðir segir hún að það kunni að vera annmörkum háð. „Sú vinna gæti verið endalaus – að rannsaka mál aftur í tímann,“ segir hún. Það verði þó líklega gert, en þá á sagnfræðilegum nótum.

 

Mynd með færslu
 Mynd:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í sama streng.

„Þetta er merkilegt verkefni í raun og veru. Lögin sem sett voru á sínum tíma snerust um það að fara yfir starfsemi stofnana ríkisins. Í þessu ferli öllu hafa þrír milljarðar verið greiddir út til rúmlega 1100 einstaklinga í samkeppnisbætur til þess í raun og veru að gera upp þessa starfsemi. Eins og kemur fram í skýrslunni sem Guðrún Ögmundsdóttir og Halldór Þormar Halldórsson skila nú þá hefur þetta verið alveg gríðarlega mikið verkefni og mikilvægt að mínu viti. Ég tel að þetta verkefni hafi verið vel leyst af hendi af þeim sem hafa stýrt því og nefni Guðrúnu og Halldór sérstaklega í því samhengi. Og þarna er ákveðnum kafla lokið."

En nú eru þetta margfalt meiri fjármunir en í raun var stefnt að í upphafi?

„Það var auðvitað rennt blint í sjóinn í upphafi, þegar var lagt af stað 2007 og 2008 með þetta verkefni. En ég held að þetta hafi verið mjög mikilvægt verkefni af hálfu stjórnvalda; að gera upp starfsemi þessara stofnana og þetta hefur verið flókið verkefni að leysa úr. En eins og lesa má um í skýrslunni þá tel ég að það hafi vel til tekist þó að það hafi verið erfitt að slá á einhverja fjárhæð í upphafi og ég held að kannski hafi öllum verið það ljóst."

Nú er líklegt að börn hafi verið vistuð á fleiri heimilum en hafa nú þegar verið rannsökuð. Er ástæða til að skoða það nánar?

„Það er ekki verið að horfa til þess til að mynda einkaheimila þar sem börn hafa verið í vistun. Það sem hins vegar er verið að gera, er að það er verið að horfa til framtíðar. Það er búið að setja á laggirnar sjálfstæða eftirlitsstofnun sem á að fylgjast sérstaklega með barnaverndarmálum. Það er verið að fara yfir allt laga- og regluverk barnaverndar. Og það er líka mikilvægt að þessi vinna skili sér í breyttu umhverfi á þessu sviði, fyrir börnin okkar til lengri tíma."

Í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli er mælt með að stjórnvöld ráðist í rannsókn á heimilum fyrir fullorðna. Er ekki full ástæða til þess að gera það?

„Í skýrslu Guðrúnar og Halldórs er bent á að í raun sé tilgangur laganna sem settur var á sínum tíma, hann er tæmdur, og það sé í raun og veru alveg ný ákvörðun ef það á að setja almenna löggjöf um sanngirnisbætur. Það kæmi mér ekkert á óvart ef við myndum taka slíka umræðu á vettvangi stjórnmálanna. En þessu verkefni er lokið og að mínu viti er líka mikilvægt að við förum að líta til framtíðar og vonandi regluverks og gera þær úrbætur sem nauðsynlegt er."