Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Erfitt að hætta við háhýsi

16.03.2014 - 19:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Háhýsin í miðborg Reykjavíkur eru minnisvarði um góðærisbjartsýnina sem hér ríkti á árunum fyrir hrun. Þetta segir formaður skipulagsráðs Reykjavíkur. Erfitt gæti reynst að hætta við byggingu 19 hæða turns í Skuggahverfi.

Framkvæmdir eru hafnar á byggingu 19 hæða turns í Skuggahverfinu á horni Frakkastígs og Lindargötu, eftir nokkurra ára hlé. Þessi 19 hæða bygging sem á að rísa í Skuggahverfinu er samkvæmt deiliskipulagi sem var samþykkt í borgarráði fyrir réttum 8 árum, í mars 2006. Formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar segir að það geti orðið erfitt að snúa þessari ákvörðun við. „Það er búið að teikna þessa turna, það er búið að leggja fyrir byggingarnefnd teikningar, það er búið að gera sökkla. Það er ábyrgð Reykjavíkur sem stjórnvalds að standa við sínar fyrri ákvarðanir,“ segir Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs.

Páll segir að árið 2006 hafi allir stjórnmálaflokkar samþykkt þessa byggingu og að ekki einn einasti íbúi hafi gert athugasemd eða hreyft mótmælum. Núna, 8 árum síðar séu allir flokkarnir í borgarstjórn á móti því að þessi turn og sambærileg háhýsi rísi og almenningur virðist líka vera þeim andsnúnari. Páll segir þetta lýsa jákvæðri og réttmætri hugarfarsbreytingu. „Þessir turnar taka sér stöðu með Höfðatorgsverkefninu, Hörpu og fleiri mjög stórum uppbyggingaráætlunum í miðborginni, klárlega sem minnisvarði um þessa góðærisbjartsýni sem ríkti hérna á fimm til sex ára tímabili.“ 

Páll segir að það geti orðið gríðarlega kostnaðarsamt að reyna að snúa þessari ákvörðun við. „Ég veit það ekki, einhver sló á einhverja milljarða.“

Sjálfstæðisflokkurinn lagði nýlega fram tillögu í borgarráði um að óska eftir viðræðum við lóðarhafa um að breytingar verði gerðar á byggingunni svo hún verði ekki svona há. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur að það ætti að vera hægt án þess að það kosti Reykjavíkurborg milljarða króna. „Það þarf ekki að verða þannig. Það hefur ýmsu verið breytt með samkomulagi við verktaka og það eru alveg fordæmi, ég ætla ekki að spá hvað gerist í þessu máli, en það eru alveg fordæmi fyrir því í fortíðinni að þeim hafi þá verið ívilnað með öðrum hætti, án þess að til beinna fjárútláta komi. Eina leiðin til að falla frá þessu er hreinlega ef húsbyggjendur ákveða það sjálfir.“