Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Erfitt að hætta nauðungarsölum

11.10.2013 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérfræðingar telja stjórnarskrárbrot að hætta nauðungarsölum þar til úrræði í skuldamálum verða kynnt. Þetta segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Hún segir þó hugsanlegt að slíkt verði lagt til í þingsályktunartillögu sem á að kynna í lok nóvember.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa krafist þess að nauðungarsölum vegna neytendalána verði hætt, í það minnsta þar til aðgerðir í þágu skuldugra heimila verða kynntar. Þau halda því fram að rúmlega 150 nauðungarsölur fari fram í þessari viku.

Fulltrúar hagsmunasamtakanna funduðu með innanríkisráðherra um málið í gær. Ráðherrann að fundurinn hafi verið góður og hann og hefur skilning á baráttu þeirra. Nauðungarsölurnar séu til skoðunar á grundvelli þingsályktunar sem var samþykkt í sumar.

„Eitt af því sem við munum skoða er hvernig við getum unnið með þessa þætti sem tengjast nauðungarsölum. Ráðherra einn og sér getur ekki stöðvað það. En það getur löggjafarvaldið og við munum skoða það samhliða öðrum tillögum í lok nóvember,“ segir Inga Hanna.

„Það er mjög erfitt fyrir löggjafann þegar fyrir liggur að flestir sem eru sérfræðingar á þessu sviði telja að slíkt væri brot á stjórnarskránni,“ segir hún aðspurð hvort ekki sé ástæða til að staldra við ef skuldaniðurfellingar geta bjargað einhverjum frá nauðungarsölu. „Þess vegna verður þetta að fara saman við þær aðgerðir sem við hyggjumst fara í og lítur að skuldamálum. Þetta verður að haldast í hendur.“

Hanna Birna útilokar ekki að þetta verði niðurstaðan þegar tillögurnar verða kynntar í lok nóvember.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru sýslumenn að fara yfir tölur hagsmunasamtakanna. Ýmislegt bendi þó til að þessa vika sé óvenju umfangsmikil í nauðungarsölum þar sem mikið af eignum hafi safnast upp í sumar.