Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Erfiðar minningar og leitin að hamingjunni

Mynd: Veröld / Morgunvaktin

Erfiðar minningar og leitin að hamingjunni

02.12.2015 - 11:33

Höfundar

Ólafur Jóhann Ólafsson hefur sent frá sér nýja skáldsögu „Endurkoman“, margslugna sögu vísindamanns sem rannsakar heilastarfsemi og reynir að nálgast lífsmörk fólks, sem er sambandslaust við heiminn. Söguhetjan átti erfiða æsku og á í vandræðum með flókið samband við foreldrana. Við þetta bætist ástarsamband og sársauki í tengslum við það. Það er undirliggjandi spenna þarna og dálítið myrkur tónn. Óðinn Jónsson ræddi við Ólaf Jóhann Ólafsson um nýju skáldsöguna á Morgunvaktinni á Rás 1.

Samtalið á Morgunvaktinni um skáldsöguna "Endurkoman" þræddi marga stigu hennar - vonandi án þess að opinbera of mikið. Mörg spjót standa að söguhetjunni, Magnúsi Colin. Móðir hans er píanóleikari, íslenskrar ættar, sem á von um langþráða endurkomu á tónlistarsviðinu, og faðirinn er breskur tónlistarútgefandi, sem hringsnýst um frægðardrauma konu sinnar og leit að viðurkenningu. Óhætt er að segja að samband Magnúsar vð foreldrana sé erfitt og stirt. Og þar býr undir einhver dimm veröld, þó fátt sé sagt berum orðum. Sonurinn upplifir sig utangátta gagnvart nánu sambandi foreldranna, sem eru ákaflega eigingjarnir. Ólafur Jóhann staðfestir að í þeim efnum hafi hann ekkert haft að sækja í eigin reynslu, þvert á móti hafi hann átt hamingjaríka æsku í nánu samneyti við fullorðna foreldra, sem hann missti ungur. Hinsvegar sé þetta reynsla margra af sömu kynslóð og hans, ekki síst vestanhafs. Foreldravandi geti verið þungur baggi. Magnús Colin er fær vísindamaður, sem náð hefur miklum árangri, en hann virðist eiga erfitt með að tengjast öðru fólki. Vísindum er stillt upp gagnvart huglægari þáttum - listinni og ástinni - í þessari margslungnu bók. "Þetta eru kannski einskonar hugleiðingar um lífið og hamingjuna", segir Ólafur Jóhann Ólafsson um "Endurkomuna".