Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Erfðamál Júlíusar Vífils fyrir dómi

06.10.2016 - 10:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skiptastjóri dánarbús Sigríðar Guðmundsdóttur, móður Júlíusar Vífils Ingvarssonar fyrrverandi borgarfulltrúa, hefur skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur ágreiningi um greiðslu til fyrirtækis sem sérhæfir sig í leit að földum bankareikingum. Málið verður þingfest á morgun.

Málið er beintengt umfjöllun um Panamaskjölin í apríl. Erfingjar höfðu áður grun um að faldir fjármunir væru erlendis en Panamaskjölin vörpuðu á málið nýju ljósi, að þeirra mati. Í framhaldi af þeirri umfjöllun vaknaði upp sú spurning hjá erfingjum Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur hvort Júlíus Vífill hafði geymt sjóði foreldra sinna í aflandsfélagi sínu. Systursonur og tvö systkini Júlíusar hafa sagt að Júlíus hafi gengist við því að sjóðirnir væru í aflandsfélaginu.

Erfingjar hugðust ráða fyrirtækið Kroll Associated til rannsóknar og er talið að kostnaður við það séu um fimm milljónir króna, sem myndi greiðast af dánarbúi. Þessu mótmælti Júlíus Vífill og bróðir hans Guðmundur Ágúst Ingvarsson meðan allir aðrir erfingjar studdu tillöguna. Þar sem ekki var sátt var ákveðið að fara með málið fyrir héraðsdóm. Sú ákvörðun um að fá Kroll í verkið var tekin áður en umfjöllun um Panamaskjölin var birt.

Líkt og kom fram í Kastljósi í apríl hafði Sigríður Guðmundsdóttir setið í óskiptu búi frá andláti eiginmanns síns. Hún lést síðastliðið haust. Erfingjar hjónanna, eftirlifandi börn þeirra sjö, og erfingjar þess áttunda deila um hvort eignir vanti í dánarbúið en Ingvar mun hafa safnað varasjóði á reikninga í erlendum banka. Sigríður mun hafa leitað að þessum sjóðum árangurslaust eftir andlát Ingvars. Ættingjar telja upphæðina geta verið vel á annan milljarð króna hið minnsta.