Erfðabreytt fóður bannað í sauðfjárrækt

22.09.2016 - 04:12
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Unnið er að því í landbúnaðarráðuneytinu að setja reglugerð sem bannar notkun á erfðabreyttu fóðri við sauðfjárrækt. Landssamband sauðfjárbænda telur að slíkt bann geti opnað markaði fyrir lambakjöt erlendis, þar sem rík krafa er um hreinleika vörunnar.

Þetta kemur fram í Bændablaðinu sem kom út í dag. Í frétt blaðsins kemur fram að fulltrúar frá bandarísku verslunarkeðjunni Whole Food Market hafi verið á ferð hér nýlega, en eitt af skilyrðum keðjunnar fyrir kaupum á landbúnaðarafurðum er að hægt sé að tryggja hreinleika vörunnar, að varan sé upprunamerkt og ekki sé verið að nota erfðabreytt fóður við framleiðsluna.

Íslensk fjallalömb eru alin án erfðabreytts fóðurs, á móðurmjólk og fjallagrösum segir jafnframt í frétt Bændablaðsins. Þó bann við notkun á erfðabreyttu fóðri sé ekki í gildi, er notkun á því hverfandi í sauðfjárrækt hér.

Sauðfjárbændur hafa um nokkurt skeið farið fram á að slíkt bann verði sett, og nú hyllir undir að það verði að veruleika.

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi