Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erfðabreyting á börnum eins og vísindatryllir

28.11.2018 - 10:40
Mynd með færslu
 Mynd: RWJMS IVF Program - Wikimedia commons
Kínverskur vísindamaður hefur sætt gagnrýni undanfarið eftir að hann upplýsti að hann væri að gera tilraunir með erfðabreytingu á ófæddum börnum. Edda Olgudóttir, líffræðingur og ritstjóri Hvatans, segir að þetta hafi ekki verið gert áður. „Þetta hefur ekki verið notað í þessum tilgangi, þar sem er verið að tala um að erfðabreyta börnum en þetta hefur verið notað í dýrum. Þá er verið að erfðabreyta fósturvísum og svo er þeim komið fyrir í dýrinu.“

Kínverski vísindamaðurinn He Jiankui sagðist í vikunni hafa gert tilraunir á ófæddum tvíburasystrum. Aðrir vísindamenn hafa fordæmt hann og segja tilraunir hans ekki siðferðislega réttar að því er fram kemur á vef breska blaðsins Guardian. He hyggst ekki ætla að fara lengra með þessar tilraunir að svo stöddu.

Edda segir að tilraunir He séu eins og vísindatryllir. Hann sé að breyta upphafinu, áður en börnin fæðast. Þá séu rannsóknir hans ekki birtar í ritrýndri grein, þar sem aðrir vísindamenn meta hvort aðferðir hans hafi verið réttmætar. „Þessi rannsókn virðist hafa verið samþykkt af vísindasiðanefnd í Kína sem mér finnst líka sláandi vegna þess við erum að tala um breytingar á einstaklingum. Vísindasiðanefndir um allan heim hafa gefið leyfi fyrir erfðabreyttum fósturvísum en skilyrðið er að fósturvísirinn lifi ekki lengi. Þessi fósturvísar deyja eftir örfáa daga í ræktun,“ segir Edda sem var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1. 

Sama aðferð og He Jiankui notar við erfðabreytingar hefur verið notuð í lækningaskyni og hvaða áhrif genin hafi. „Þessi tækni er bara tól sem er hægt að nota í alls kyns rannsóknum. Það er hægt að nota hana í til dæmis krabbameinsrannsóknum og sykursýkisrannsóknum,“ segir Edda.

„Þetta hefur verið notað til frumuræktunar og í dýramódelum þar sem þú ert að breyta ákveðnum genum til þess að skoða hvað gerist ef þú breytir þeim. Hvort þú getir læknað sjúkdóma með því að breyta þessum genum. Þetta hefur líka verið notað í lækningaskyni en þetta er alls ekki mikið notað. Þetta er ekki notað hér á Íslandi í lækningaskyni, en þetta eru tilraunir,“ bætir hún við. 

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV