Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erdogan sýndi „fáránlega“ áróðursmynd í Hvíta húsinu

epa07994112 US President Donald J. Trump (R) listens to remarks by Turkish President Recep Tayyip Erdogan (4-R), during a meeting with Republican senators, including Sen. Rick Scott of Florida (L) and Sen. Lindsey Graham of South Carolina (2-L), in the Oval Office of the White House in Washington, DC, USA, 13 November 2019. The visit comes one month after Turkey's invasion into northern Syria against the Kurds and on the first day of public impeachment hearings.  EPA-EFE/MIKE THEILER / POOL
Öldungadeildarþingmennirnir Rick Scott frá Flórída og Lindsay Graham frá Suður Karólínu sátu fund í forsetaskrifstofunni ásamt þremur kollegum sínum, með þeim Donald Trump, Recep Tayyip Erdogan og Mike Poimpeo Mynd: epa
Til orðahnippinga kom á fundi Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta með Donald Trump, Bandaríkjaforseta og fimm öldungadeildarþingmönnum Repúblikana í Hvíta húsinu á miðvikudag. Ástæðan er að Erdogan kaus að nota tækifærið til að sýna gestgjöfum sínum kvikmynd til sönnunar þess að Kúrdarnir, sem þeir létu sér svo annt um í Norðaustur-Sýrlandi, væru í raun hryðjuverkamenn.

Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum fór þetta sérstaklega fyrir brjóstið á Lindsay Graham, sem brást hinn versti við. Erdogan hafði spjaldtölvu meðferðis og notaði hana til að sýna Trump og þingmönnunum kvikmynd, þar sem útlistað var að bardagasveitir Kúrda, YPG-sveitirnar, sem börðust við hlið Bandaríkjamanna gegn vígasveitum Íslamska ríkisins í Sýrlandi, væru ekkert annað en samansafn hryðjuverkamanna og að þar færi leiðtogi þeirra fremstur í flokki.

„Hreinn áróður“

CNN-fréttastöðin hefur eftir ónafngreindum Repúblikana í hópi fundargesta, að kvikmyndin hafi verið „fáránleg“ og „hreinn áróður.“ Vefmiðillinn Axios greindi fyrst frá þessari undarlegu uppákomu. Þar segir að um leið og myndinni lauk hafi Lindsay Graham snúið sér að Erdogan og spurt, „Jæja, viltu að ég fari til Kúrdanna og biðji þá að gera mynd um það sem þú hefur gert?“

Hófst þá orðaskak þeirra Grahams og Erdogans. Hinum síðarnefnda mislíkaði það mjög, að Graham kallaði herför Tyrkja til Sýrlands innrás, en Lindsay brást ókvæða við þegar Erdogan hélt því fram að Tyrkir hefðu gert mun meira til að ráða niðurlögum Íslamska ríkisins en Kúrdarnir í YPG.

„Þessu mótmælti ég harðlega og sagði Tyrkjum að 10.000 bardagamenn YPG, aðallega Kúrdar, hefðu þjáðst, dáið eða særst, í stríðinu við Íslamska ríkið, og  að Bandaríkin muni ekki gleyma því og muni ekki yfirgefa þá,“ sagði Lindsay í samtali við fréttamann Axios.

Trump hélt sig til hlés

Aðrir þingmenn sem viðstaddir voru blönduðu sér líka í deilurnar við Erdogan en Trump er sagður hafa fylgst með á hliðarlínunni og einungis skotið inn orði og orði til að stýra umræðunum.

Eitt af því sem tekist var á um voru kaup Tyrkja á rússnesku loftvarnakerfi. Í yfirlýsingu sem Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður frá Texas, sendi frá sér eftir fundinn, segist hann hafa gert Erdogan það ljóst, „að svo lengi sem Tyrkir halda áfram að kaupa eða nota S-400 loftvarnakerfið frá Rússlandi, þá munu Bandaríkin ekki selja F-35 orrustuþotur til Tyrklands.“ Hinir þingmennirnir fjórir tóku allir undir þetta. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV