Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Er Spotify að fella alla tónlist í sama mótið?

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

Er Spotify að fella alla tónlist í sama mótið?

07.10.2017 - 11:30

Höfundar

Streymisveitur eins og Spotify og Tidal hafa ekki bara gjörbreytt viðskiptamódelum tónlistarbransans heldur einnig því hvernig tónlist er samin og tekin upp.

Þetta kemur fram á vefritinu Pitchfork sem tók viðtöl við ótal lagahöfunda og upptökustjóra sem segja frá því að streymisveiturnar hafi áhrif á nánast alla þætti hins skapandi ferlis, frá upptökum og hljóðheimi til lagasmíða og raddbeitingar. Það er þó ekkert beinlínis nýtt við það að tæknin að baki dreifingu á tónlist hafi mótandi áhrif á sköpunina, hugmyndir okkar um lengd lags til dæmis, eða smáskífuna, mótaðist af lengdinni sem komst fyrir á sjö tommu 45 snúninga plötu. Langbylgju útvarp var í mono og „hljóðveggur“ upptökustjórans og lagahöfundarins Phil Spectors með sínu mikla bergmáli og ofhleðslu á hljóðfærum var sérstaklega hannað fyrir útvarpsspilun.

Áunnin athyglisbrestur

Breiðskífan sem heilsteypt listaverk margra laga í tiltekinni röð, 30 til 45 mínútur að lengd, varð einfaldlega til af því að það var plássið á hefðbundinni vínylplötu (ef listamenn höfðu frá sérstaklega miklu að segja lögðu þeir í tvöfalda plötu). En eftir komu geisladisksins lengdist meðalplatan mjög mikið, því þar var pláss fyrir 80 mínútur. Nú er breiðskífan sem listform á undanhaldi vegna netverslana, streymisveitna, lagalista og kannski því sem sumir myndu kalla áunnin athyglisbrest þúsaldarkynslóðar sem lætur sér ekki leiðast lengur en örfáar sekúndur áður en ýtt er á skip-takkann eða næsti flipi er opnaður.

Í Despacito koma saman mörg trend sem hafa einkennt poppsmelli á streymisöldinni.

Streymisumhverfi dagsins í dag hefur leitt af sér ákveðna einsleitni í poppheiminum. Það mikilvægasta í þessu sambandi er að framhlaða lögin af grípandi tónum og hljóðum, því ef notandinn hættir að hlusta eftir minna en 30 sekúndur af laginu fær listamaðurinn ekkert greitt.

Hæg tempó og exótísk hljóðfæri

Það hefur leitt af sér að í staðinn fyrir hina klassísku vers-viðlag-vers uppbyggingu er nú æ algengara að byrjað sé á viðlaginu. En ekki bara það, heldur þarf helst að troða í fyrstu þrjátíu sekúndurnar eins mörgum krókum, hljóðum og öðru sem getur vakið áhuga fólks, og auðið er. Best af öllu er ef hægt er að koma fyrir einhverju kunnulegu, til dæmis ef hljóðbút úr eldri smelli er að finna í laginu, en rannsóknir sína að fólk hoppar almennt ekki yfir lag sem það hefur heyrt áður.

Það er kaldhæðnislegt að helsti fánaberi tónlistarstefnu kennt við hitabelti komi frá landi sem er nær heimskautabaugnum.

Það er viss formúla að alþjóðlega streymisslagaranum og nýleg trend sem kristallast vel í Despacito. Í fyrsta lagi ber að nefna einhvers konar glóbalisma, eða exótisma öllu heldur. Eitthvað sem minnir á strendur, frumskóga eða sól, eða það sem er framandi hvítum Vestur-Evrópubúum. Það er einmitt sérstakur geiri tónlistar sem fyrst varð vinsæll í gegnum Spotify lagalista sem hefur verið nefndu hitabeltishús (tropical house), þar sem norski upptökustjórinn Kygo er skærasta stjarnan. Hitabeltishúsið er mjög meinlaus geiri sem hentar vel sem bakgrunnstónlist, hæg tempó og full af hallærislegum hljóðfærum eins og panflautum, sílófónum og stáltrommum. Kygo þessi varð enda fyrst vinsæll fyrir endurhljóðblandanir sínar á „þægilegum“ listamönnum eins og Ed Sheeran og Coldplay.

„Drop“-ið tröllríður öllu

Annað sem hefur einkennt mörg nýleg popplög er hið svokallaða „poppdropp“. Þá er hið svokallaða „drop“, sem eru kaflar úr vinsældadanstónlist (EDM) sem einkennast af tryllingslegum bassadrunum, tekið og mildað, rúnað af því hörðusti brúnirnar, þannig að það geti gegnt hlutverki brúar í popplagasmíðum. Eitt besta dæmið um það er lag Skrillex og Diplo frá 2015, „Where Are Ü Now“, sem Justin Bieber syngur, sem höfundur Pitchfork greinarinnar segir vera fyrsta einkennislag streymisaldarinnar. Á plötu Justins Bieber var poppdroppið áberandi í lögum eins og „What Do You Mean?“ og „Sorry“ en aðferðin hefur síðan verið afrituð í lögum listamanna eins og Rihönnu, Lady GaGa og Coldplay.

Hið svokallaða „popp-drop“ má heyra á mínútu 1:07 og 3:00.

Líklega hefur engin samt fullkomnað poppdroppið eins og pródúsantatvíeykið Chainsmokers, sem nýlega slóg met sænsku poppsveitarinnar Ace of Base, fyrir lengstu samfelldu setu á topp 10 Billboard listanum, 61 viku. Það hófst með laginu „Roses“ en fjögur önnur mjög svipuð lög fylgdu í kjölfarið. Meðlimir sveitarinnar tala skammarlaust um að velja sér gestasöngvara til að höfða til tiltekinna markhópa, og að gögn frá streymisveitum séu bestu tækin til þess að semja lög. Þá lítur sveitin á samskipti sín við blaðamenn sem viðskiptasambönd.

Annað einkenni mest streymdu laganna er að textarnir hljóma persónulegir en samt þannig að margir geti tengt við þá, og söngurinn er lágstemmdur. Það er eins og tónlistin sé frekar gerð fyrir hlustun í heyrnartólum og hlustendur sækist eftir að því að líða eins og einhver sé að hvísla að þeim leyndarmáli.

Erfitt er að greina hvort þessi trend séu áberandi í íslenskri vinsældatónlist, en kannski mætti segja að hæg tempó og létttrópískur hljóðheimur laga Glowie minni eilítið á Kygo og The Chainsmokers. Langsamlega vinsælasta tónlist á Íslandi er hins vegar hiphop og lausleg könnun leiðir í ljós að í mikið af nýjum slögurum, til dæmis með Joey Christ, Hr. Hnetusmjör, og Emmsjé Gauta, kemur viðlagið áður en fyrstu 30 sekúndur lagsins eru allar, sem og í vinsælasta laginu á Spotify á Íslandi um þessar mundir, B.O.B.A., sem einnig byrjar á hljóðbút með Bubba sem margir kannast við.