Þetta kemur fram á vefritinu Pitchfork sem tók viðtöl við ótal lagahöfunda og upptökustjóra sem segja frá því að streymisveiturnar hafi áhrif á nánast alla þætti hins skapandi ferlis, frá upptökum og hljóðheimi til lagasmíða og raddbeitingar. Það er þó ekkert beinlínis nýtt við það að tæknin að baki dreifingu á tónlist hafi mótandi áhrif á sköpunina, hugmyndir okkar um lengd lags til dæmis, eða smáskífuna, mótaðist af lengdinni sem komst fyrir á sjö tommu 45 snúninga plötu. Langbylgju útvarp var í mono og „hljóðveggur“ upptökustjórans og lagahöfundarins Phil Spectors með sínu mikla bergmáli og ofhleðslu á hljóðfærum var sérstaklega hannað fyrir útvarpsspilun.
Áunnin athyglisbrestur
Breiðskífan sem heilsteypt listaverk margra laga í tiltekinni röð, 30 til 45 mínútur að lengd, varð einfaldlega til af því að það var plássið á hefðbundinni vínylplötu (ef listamenn höfðu frá sérstaklega miklu að segja lögðu þeir í tvöfalda plötu). En eftir komu geisladisksins lengdist meðalplatan mjög mikið, því þar var pláss fyrir 80 mínútur. Nú er breiðskífan sem listform á undanhaldi vegna netverslana, streymisveitna, lagalista og kannski því sem sumir myndu kalla áunnin athyglisbrest þúsaldarkynslóðar sem lætur sér ekki leiðast lengur en örfáar sekúndur áður en ýtt er á skip-takkann eða næsti flipi er opnaður.