Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Er okkur treystandi fyrir ungbörnum?

Mynd: . / .

Er okkur treystandi fyrir ungbörnum?

29.08.2017 - 16:15

Höfundar

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir veltir fyrir sér hvernig menningin hefur áhrif á umönnun ungbarna - og hvort okkur sé yfirhöfuð treystandi fyrir þessum krílum.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:

Mannlegt eðli og umönnun ungbarna

Eitt af því helsta sem skilur mannkynið frá dýrum er sú staðreynd að við stjórnumst ekki af eðlishvöt. Það þýðir ekki að við séum æðri öðrum spendýrum eða rekin áfram af merkilegri hvötum, heldur að við gerum ekkert ósjálfrátt. Allt sem við gerum þurfum við að læra af öðrum. Allt mannfólk finnur fyrir sömu grunnþörfunum, við þurfum að nærast, hvílast, losa okkur við úrgang og njóta félagsskapar annarra. Það hvernig við mætum þessum þörfum, og siðirnir í kringum það, er hins vegar gerólíkt á milli samfélaga. Það má því segja að saga mannkyns snúist alltaf um að svara sömu spurningunum, en að í hvert skipti sé svarið ólíkt. Ein slík spurning er það hvernig sé best að annast ungbörn.

Við lærum af þeim eldri

Ungbörn eru merkilegar verur, þeirra eina viðfangsefni er að vaxa og þroskast og það geta þau gert undir ólíklegustu kringumstæðum. Á sama tíma eru þau viðkvæm og berskjölduð. Það er því ævafornt umhugsunarefni hvernig eigi að gæta þeirra og ungbarnadauði er enn útbreitt vandamál í heiminum. Önnur spendýr sinna þessu verki af eðlisávísun, hvort sem þau lifa í hópum eða einsömul, og hefur í gegnum tíðina oft vegnað töluvert betur í þessu verkefni en okkur. Okkur til afsökunar þá er þetta viðkvæma skeið ævinnar lengra hjá fólki en öðrum spendýrum. Nýfædd ungbörn fæðast með alls konar ósjálfráð viðbrögð rétt eins og önnur spendýr. Þau geta til dæmis kafað og tekið nokkur skref með stuðningi, en þessu gleyma þau fljótt og þurfa að læra síðar meir með ærinni fyrirhöfn. Í staðinn fyrir að byggja þroska okkar á eðlislægum hreyfingum þá ræktum við þann hæfileika að læra af öðrum. En hvað ef það sem við lærum er tóm vitleysa?

Þekkingin á villigötum

Almennt séð vill fólk börnum sínum allt hið besta og fólk úr efstu lögum samfélagsins á jafnan auðveldast með að veita þeim það. Ef við tökum Frakkland á 18. öld sem dæmi, þá náðu þrír fjórðu allra franskra barna fullorðinsaldri en munurinn var mikill á milli héraða. Á Bretaníuskaga lifði einunis helmingur barna af en í Aquitaníuhéraði, þar sem velmegun var meiri, komust tvö af hverjum þremur börnum á fullorðinsár. Það óhugnanlega er hins vegar að þekking á þörfum ungbarna var á svo miklum villigötum á þessum tíma að þeim mun meiri kostnaði, tíma og alúð sem foreldrar vörðu í börn sín, því verri gátu lífslíkur þeirra orðið. Það var til dæmis útbreiddur misskilningur að ungbörn gætu ekki lært að tala og ganga nema gripið yrði til sérstakra aðgerða, að vefja þau mjög þétt í reifar svo beinin yxu beint og skera í sundur himnuna undir tungunni, svo þau gætu sogið og myndað hljóð. Ungbörn líta líka fremur sérkennilega út rétt eftir fæðingu, höfuðið er uppmjótt, húðin bláleit og þau geta verið með ýmiss konar útbrot. Það var því algengur siður í Frakklandi að reyna að kippa þessu í liðinn, með því að móta höfuðið til baka með höndunum og bera salt á húðina þeim til heilsubótar.

Síðustu tvö atriðin voru reyndar á hröðu undanhaldi í Frakklandi á 18. öld, enda var mikil hugmyndafræðileg og vísindaleg gerjun í landinu á þessum tíma. Eftir sem áður var stærsta ógnin við líf og heilsu franskra ungbarna skorturinn á réttri næringu. Þetta kann að hljóma fáránlega, heppilegasta næringin fyrir ungbörn er augljóslega brjóstamjólk og hvernig getur heilt samfélag klúðrað því? En brjóstagjöfin, þetta ferli sem einhvern tíma fyrir árþúsundum var okkur eðlislæg, hefur fyrir óralöngu síðan hlotið sömu örlög og önnur líkamsstarfssemi okkar, hún hefur orðið menningarlega mótuð og skilyrt. Eitt af því sem mótaði brjóstagjöf í Evrópu fyrr á öldum voru vangaveltur læknisfræðinnar sem áttu uppruna sinni í grískri fornöld. Sú læknisfræði byggðist á líkamsvessunum fjórum og jafnvægi þeirra og er heillandi dæmi um það hvað við getum búið til sannfærandi kerfi útskýringa um okkar eigin líkama, án þess að það komi raunveruleikanum nokkuð við.

Brjóstamjólkin olli áhyggjum

Og hvar passaði brjóstamjólkin inn í þetta kerfi? Hún olli í það minnsta nokkrum áhyggjum og líklegt þótti að brjóstamjólkinni væri mjög hætt við að fara úr jafnvægi. Til dæmis ef móðirin borðaði ekki rétt eða vann of mikið en sumir álitu einnig að skapsveiflur og innræti gætu líka spillt mjólkinni. Hún gæti auðveldlega mengast af reiði, græðgi og lostafullum hugsunum sem ættu ekkert erindi ofan í lítið ungbarn. Því væri best að ráða sérstaka brjóstamóður sem myndi eingöngu helga sig umönnun og næringu barnsins og ástunda skírlífi og frómar hugsanir. Rannsóknir hafa sýnt að brjóstagjöf verður ekki árangursrík nema mæður njóti beinlínis stuðnings og hvatningar, því þarf ekki að koma á óvart að margar konur fyrri alda hafi guggnað og talið betra að fela barnið í umsjá atvinnukonu á brjóstamjólkursviðinu.

Þessi hugmyndafræði kom að ofan, frá háskólamenntuðum læknum á miðöldum og árnýjöld, og hafði því einna helst áhrif á efstu lög samfélagsins, fólk sem hafði efni á því að ráða konu í fullt starf til þess að annast börnin sín á þennan hátt. En stundum sköpuðust aðstæður þar sem háir og lágir voru í nánum tengslum og hugmyndafræðin um vandkvæði brjóstagjafar breiddist út. Slíkar aðstæður sköpuðust til að mynda í frönskum borgum á 18. öld. Í Lyon voru nær öll nýfædd börn sett í umsjá brjóstamóður og í París var það eingöngu fátækasti þriðjungur mæðra sem hafði börnin á sínu eigin brjósti. Eingöngu hinir efnuðustu gátu ráðið brjóstamóður heim til sín, restinni af börnunum var útvistað, ef svo má segja. Þau voru send á ókunnug heimili fjarri borginni og sannleikurinn var sá að brjóstamóðirin sem tók á móti þeim var líklega fátækari en blóðmóðirin, vann lengri vinnudag, bjó í verra húsnæði, fékk minna að borða og hafði í alla staði minna að gefa barninu. Niðurstaðan var sú að mörg þessara barna sneru aldrei aftur heim. Þetta kann að virðast fjarstæðukennt, en í mikilvægum málefnum eins og heilsu og velferð barna þá högum við okkur ekki endilega rökrétt. Til samanburðar má benda á andstöðu margra foreldra í dag við bólusetningar.

Dúsur og lúxusfæði

Ísland kann að hafa verið eitt þeirra svæða í Evrópu þar sem hugmyndin um vandkvæði brjóstagjafar náði mikilli útbreiðslu, af því að samfélagið var smátt og samskipti ólíkra stétta mikil. Fyrir því eru þó engar beinar sannanir og enn hefur ekki fundist íslenskur texti þar sem þessar hugmyndir eru tíundaðar. Staðreyndin er þó sú að einhvern tíma eftir lok miðalda hættu íslenskar konur, nema þær allra fátækustu, að gefa börnum sínum brjóst. Ólíkt hinni evrópsku hefð að ráða utanaðkomandi brjóstamóður þá gáfu íslenskir foreldrar ungbörnum mjólk úr kúm eða ám og rjóma eða smjör ef þau vildu gera þeim sérlega gott. Börnin ýmist sugu þetta úr tuskum eða mjólkinni var dreypt ofan í þau með fjaðurstöfum. Í ljósi viðkvæms meltingarkerfis ungbarna þá má heita ótrúlegt að Íslendingar hafi ekki tortímt sjálfum sér með þessum aðförum. Afleiðingarnar voru enda slíkar að þeirri kenningu var á sínum tíma slengt fram að þessi siður hafi falið í sér einhverskonar eftir-á-getnaðarvörn, að barnmargir foreldrar hafi vísvitandi fækkað í hópnum með því að gefa ungbörnum fæðu sem þau gátu ekki melt.

Fáir hafa tekið undir þessa skoðun og líklegast er að Íslendingar hafi litið svo á að þeir væru að gefa börnunum sínum það besta sem völ var á, þrátt fyrir að það hafi augljóslega ekki virkað. Af þessu má draga þá óhugnalegu niðurstöðu að við vitum ekkert og erum ófær um að draga rökréttar ályktanir af gjörðum okkar og reynslu. Það er því af gildri ástæðu sem enn er verið að rannsaka það hvernig eigi að annast börn og þess vegna höldum við úti heilum her af opinberu starfsfólki til að aðstoða okkur við þetta verkefni.