Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Er konan baggi á herðum kvenna?

Mynd: Hildur Ása Henrýsdóttir / Hildur Ása Henrýsdóttir

Er konan baggi á herðum kvenna?

13.02.2017 - 13:05

Höfundar

Myndlistarkonan Hildur Ása Henrýsdóttir hefur vakið athygli fyrir framsetningu sína á kvenlíkamanum í list sinni, en hún notar sjálfa sig sem fyrirmynd. Sjálfsmyndin er því útgangspunktur hennar, sem gefur henni vissulega ákveðið frelsi, en þegar betur er að gáð er þar kannski líka ákveðinn baggi, sem allir kvenkyns listamenn burðast með.

Hildur Ása segir verk sín fjalla um tilvistarleg átök einstaklingsins. Engu að síður eru þau nær undantekningarlaust lesin sem femínísk verk, þar sem umfjöllunarefnið er konan. 

„Ég get gengið eins langt með sjálfa mig og ég vil, og það er kannski líka ástæðan fyrir því að ég nota sjálfa mig,“ segir Hildur. „Þá þarf ég ekki að taka tillit til neins, nema náttúrlega sjálfrar mín.“ Á myndum sínum skrumskælir hún ásýnd sína töluvert, svo markmiðið er augljóslega ekki að fylgja útlitsstöðlum. Þetta er sérstaklega á skjön við myndir sem við höfum vanist að sjá á samfélagsmiðlum, þar sem fólk ritskoðar birtingarmynd sína til að uppfylla ákveðna ímynd. 

Og Hildur notast við sjálfsmyndina, þá ævafornu rannsóknarleið, í miðli sem er karllægur vegna sögunnar. Karlkyns listamenn réðu för í málverkinu lengst framan af og konur voru viðfang, ekki gerendur. Í gegnum tíðina hafa konur brotið sér leið í gegnum strigann og bent á þetta misræmi, barist gegn því - augnaráði karlmannsins, sem jafnvel þær gerast sekar um sjálfar. 

Er kynið baggi á herðum listakvenna, sem karlar eru lausir við? Er rannsóknin sem fólgin er í sjálfsmyndum karla listamaðurinn, en í sjálfsmyndum kvenna... konan?

Hildur Ása Henrýsdóttir var gestur í tveimur þáttum Víðsjár í síðustu viku. Hér fyrir ofan má hlýða á bæði viðtölin saman.