Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Er hægt að vera húseigandi og góð manneskja?

Mynd: RÚV / RÚV

Er hægt að vera húseigandi og góð manneskja?

10.03.2017 - 11:11

Höfundar

Húsið, áður ósýnt verk eftir Guðmund Steinsson, verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Það tók verkið næstum því hálfa öld að rata á svið en efniviður þess hefur ef til vill aldrei átt jafn vel við og nú á tímum háspennu á fasteignamarkaði. Kristbjörg Kjeld, ekkja Guðmundar, fer með eitt aðalhlutverkanna.

Guðmundur skrifaði Húsið í byrjun 8. áratugarins en það var aldrei tekið til sýninga á meðan hann lifði. Nú hefur Benedikt Erlingsson leikstjóri ákveðið að setja það upp í Þjóðleikhúsinu, en hann leikstýrði Sólarferð eftir Guðmund fyrir nokkrum árum. Benedikt segir að viðfangsefni Hússins sé hin góða manneskja. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Benedikt Erlingsson, leikstjóri.

„Er hægt að vera góður og fasteignaeigandi? Við kynnumst fjölskyldu sem hefur efni á því að stækka við sig. Í nýja stóra húsinu eru lögð fyrir þau verkefni, próf sem þau falla á hverju á fætur öðrum. Í rauninni er þetta verk um mjög margt, það vísar í margar áttir og er mjög heimspekilegt og vonandi ekki óskemmtilegt.“ 

Andi áttunda áratugarins svífur yfir vötnum í litríkum búningum Filippíu Elísdóttur og leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar. 

Frummyndir okkar í dag

„Períódan hefur verið fyrir mér ákveðinn lykill,“ segir Benedikt. „Þetta er akkúrat kynslóð foreldra minna. Þetta er eins og gömul frummynd að fyrirmyndum. Tökum heimilisföðurinn sem dæmi, maður sem telur að staður konunnar eigi að vera á heimilinu. Það er erfitt að vera svona maður í dag, en hann er samt frummyndin sem við karlmenn höfum í okkur. Ef faðir okkar var ekki þannig var hann að glíma við svona mann sem frummynd og móðir okkar við húsmóðurina. Þetta er arfur okkar.“

Benedikt hefur löngum heillast af verkum Guðmundar og nálgun hans.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Steinsson, leikskáld og höfundur Hússins.

„Hann er einskonar mannfræðingur og músíkant. Það er svo ótrúlegt að heyra samtöl hans, hann getur dregið fram músíkina í tungumálinu. Mér finnst hann skyldur Pinter eða Beckett að því leyti. Það er margt í fagurfræði hans sem mér finnst vera mjög heillandi. Svo eru viðfangsefni hans svo stór og heimspekileg, djúp og krefjandi.“

Firring og skortur á nánd

Guðmundur lést fyrir aldur fram 1996. Kristbjörg Kjeld, ekkja hans, hefur leikið í nær öllum verkum hans sem hafa verið sett á svið. 

„Ég hef tröllatrú á Benna. Hann setti upp Sólarferð fyrir nokkrum árum og mér þótti mjög vænt um það þegar hann varð spenntur fyrir þessu.“ 

Þótt langt sé um liðið man hún vel vel eftir því þegar Guðmundur skrifaði Húsið.  „Það kom mér ekki á óvart að þetta skyldi ekki vera gamaldags. Þótt verkið sé gamalt smellur það inn í nútímann. Inntakið er í anda þess sem Guðmundur var að fást við, einhver firring og að það vanti nándina hjá fólki.“ 

Benedikt segir dýrmætt að hafa Kristbjörgu í leikhópnum, að geta spurt hana og leitað ráða. „Ég hef farið mjög varlega af ákveðnum ástæðum. Mér finnst verkið eins og mósaík, það er erfitt að strika það, það er svo vandlega byggt. En verkið hefur aldrei verið flutt fyrr og eins og hún hefur sagt sjálf hefði Guðmundur sjálfur verið uppi með hnífinn. En fyrir okkur er ótrúlegur heiður að hafa hana með okkur.“