Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Er ekki öfga umhverfissinni“

31.05.2016 - 15:56
Mynd: RÚV / RÚV
Forsetaframbjóðandinn Andri Snær Magnason segist ekki vera öfga umhverfissinni. Hann hafi bara vakið athygli á mjög stórum framkvæmdum sem séu fyrirhugaðar á hálendinu. Hann sé ekki að gefa kost á sér í forsetaembættið til að að stöðva einstaka framkvæmdir.

Forsetaframbjóðendur eru á þönum þessa daga því nú styttist í kosningar. Andri Snær heimsótti starfsmenn Nýherja í Reykjavík í hádeginu þar sem þeir sátu að snæðingi. Hann sagði meðal annars fólk í dag ætti betri möguleika en áður að afla sér upplýsinga. Krafan sé um beint lýðræði, að fólk fái að kjósa um mikilvæg mál. 

„Stærstu örin í þjóðarsálin stafa af því að við fengum ekki að kjósa um mál sem hugsanlega var smyglað inn á milli kosninga. Og stundum ekki með skýran meirihluta jafnvel á þingi, jafnvel í krafti flokksræðis eða annara þátta. Þannig að ég tel að fólk vilji gjarnan sjá að rödd þeirra fái að hljóma. Ef 10,15 prósent landsmanna vilja þjóðaratkvæðagreiðslu sé það mögulegt," segir Andri Snær.

Ekki öfga umhverfissinni

Andri Snær fékk bara eina spurningu úr matsalnum hjá Nýherja. Hún var um það hvort það væri erfitt að bjóða sig fram á eftir Ólafi Ragnari sem hefði hefði skilgreint embættið upp á nýtt. Andri Snær segir að sú staðreynd geri embættið áhugaverðara.

„Sumir kalla mig öfga umhverfissinna en ég er það í raun ekki. Ég hef bara vakið máls á mjög stórum framkvæmdum sem hafa verið fyrirhugaðar á hálendinu. Sumir halda að ég sé að fara fram bara til að stöðva einstaka framkvæmdir. Mín vinna hefur snúist um að búa til stórar hugmyndir og vinna á hugmyndaplani þar sem maður pælir í óvæntum flötum," segir Andir Snær. Hann segir að embættið snúist um að búa til hugmyndir og tengja svo aðila saman sem geta lyft þeim upp á hærra plan.

Í könnun Fréttablaðsins í dag mælist Andri Snær með 16,3 % fylgi. Vikmörk eu 2,2 prósent en ef miðað er við þessa tölu og að kosningaþátttakan verði sú sama og hún var 2012 þýðir þetta að um 28.500 ætla að krossa við Andra Snæ. Hann segir að enginn bilbugur sé á sér.

„Nei, alls ekki. Þessi barátta snýst um að koma framtíðarsýn á framfæri. Lýðræðið snýst um að veita fólki skýra valkosti. Ég er að því núna og næstu vikur. Að tala um þá framtíðarsýn sem ég hef um hvernig hægt er að búa til tengingar innanlands og erlendi sem ættu að geta komið landi og þjóð að gagni," segir Andri Snær Magnason.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV