Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Er brugðið yfir bréfi frá sendiherra Póllands

19.11.2018 - 09:44
Mynd:  / 
„Manni var bara brugðið við að sjá þetta,“ segir Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á Stundinni, um athugasemdir sendiherra Póllands á Íslandi um grein sem hann skrifaði í Stundina um sjálfstæðisgöngu í Póllandi á dögunum. Sendiherrann hefur kvartað til forseta íslands og forsætisráðherra og krefst þess að Stundin biðji Pólverja afsökunar á fréttaflutningnum.

Sendiherrann sendi bréf til ritstjórnar Stundarinnar og afrit sent á skrifstofu forseta og forsætisráðherra og krefst þess að beðist verði afsökunar á fréttinni og að hún verði dregin til baka. „Og þar er í rauninni líka kannski svolítið ýjað að því að þessi fréttaflutningur geti einfaldlega skaðað samskipti ríkjanna. Þannig að það er eins og það liggi næstum því undir niðri einhvers konar, ja ég veit ekki, millríkjadeila eða hvað. Þannig að manni finnst viðbrögðin alveg svakaleg og með ólíkindum,“ sagði Jón Bjarki í viðtali við Sigmar Guðmundsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. Jón Bjarki segir að ritstjórn Stundarinnar rámi ekki í neitt í líkingu við þessar athugasemdir síðustu áratugi. 

Þannig að þetta er eins og pólsk yfirvöld haldi að það heyri upp á forsætisráðherra og forseta að skipta sér af fréttaflutningi miðla á Íslandi? „Það virðist vera, miðað við þetta. Að það eigi að vera eðlilegt að senda svona kvörtun til beint til ráðamanna hér á landi yfir lítilli frétt lítils frjáls fjölmiðils á Íslandi.“

Í fréttinni er fjallað um sjálfstæðisgöngu 11. nóvember þegar Pólverjar fögnuðu 100 ára sjálfstæði landsins. Sendiherrann segir í bréfi sínu til Stundarinnar að í grein blaðsins séu allir Pólverjar sem elski landið sitt kallaðir nasistar eða fasistar. Dómstóll í Varsjá hafði fyrr í vikunni bannað göngu þjóðernissinna samhliða sjálfstæðisafmælinu, en áfrýjunardómstóll aflétti því. Í grein Stundarinnar, sem blaðið segir að byggi á fréttaflutningi alþjóðlegra fjölmiðla á borð við New York Times, Guardian og Al Jazeera, segir að „forseti Póllands, forsætisráðherra og aðrir helstu leiðtogar landsins, hefðu marsérað um götur Varsjár í fylgd þjóðernissinnaðra hópa sem hafa verið skilgreindir sem fasískir og/eða nýnasískir“.“  

Hefur fengið óþægileg skilaboð út af fréttinni 

Jón Bjarki segist einnig hafa fengið óþægileg skilaboð frá Pólverjum hér á landi. Hann segir að hann skilgreini þau ekki beint sem hótanir. „En einhvers staðar nærri því. Allavega þannig að manni finnst ekki þægilegt að upplifa. Líka miðað við eins og ég segi, þetta bréf frá sendiherranum, hann stillir þessu svolítið upp sko, mér persónulega, hann nafngreinir  mig, eiginlega sem, ég veit það ekki, maður upplifir það svolítið eins og litið sé á mann sem óvin pólsku þjóðarinnar allrar. Mér finnst það alveg ótrúlega óþægileg tilfinning að vera stillt þannig upp. Því að auðvitað er ég ekki óvinur einnar einustu þjóðar eða fólks og mér líkar vel við Pólverja, þykir vænt um þá marga og fer oft til Póllands. Þannig að það er óþægilegt andrúmsloft í tengslum við þetta allt saman, verð ég að viðurkenna, og manni er brugðið við svona viðbrögð.“

„Mér finnst þetta auðvitað mjög alvarlegt“

Jón Bjarki segir að engin samskipti hafi verið milli ritstjórnarinnar og stjórnvalda út af bréfi sendiherrans. „Ég býst nú ekki við því allavega eins og er að það verði nokkuð. Ég hugsa að það sé nú kannski allt í lagi að túlka þetta sem einhvers konar, alllavega í bili, upphlaup hjá sendiherranum og einhvers konar mistök.“

Sigmar Guðmundsson benti þá á að þegar sendiherra ritar bréf til yfirvalda hér þá sé það býsna formlegt. Þetta væri ekki eins og eitt símtal inn á ritstjórn blaðsins heldur gert með formlegum hætti og lúti að samskiptum ríkja. „Ég veit það, en maður reynir aðeins að gera minna úr því heldur en það kannski er. Mér finnst þetta auðvitað mjög alvarlegt og allt það. En ég held að það vilji kannski enginn að það verði svakalegt mál út úr slíku. Þannig að við sjáum bara til en maður veit ekki hvort sendiherrann geri eitthvað meira,“ sagði Jón Bjarki. 

Halda áfram að fjalla um Pólland

Jón Bjarki segir að Stundin ætli áfram að fjalla um stöðu mála í Póllandi. „Sem er augljóslega orðin mjög alvarleg að rosalegu mörgu leyti. Við sjáum bara dæmi um fjölmiðlafrelsi eftir að þessi Laga og réttlætisflokkur tekur við, fjölmiðlafrelsi í Póllandi fer niður um 29 sæti þarna á einu ári. Pólland er komið niður í 58.sæti, samkvæmt lista Blaðamanna án landamæra, og er í rauninni ekki skilgreind með fulla frjálsa fjölmiðlun lengur, til dæmis af Freedom House. Þeir hafa bent á það að það sé að hluta til ekki hægt að tala um að það ríki algjört fjölmiðlafrelsi þar. Staðan í landinu með tilliti til fjölmiðlafrelsis og síðan þessi viðbrögð sendiherrans hér eru ekki alveg í einhverju tómi. Það eru viðbrögð í líkingu við þetta, sem maður hefur heyrt af í nágrannalöndum og í Evrópu, að sendiherrar séu að bregðast við með einhverjum hætti við umfjöllun um Pólland. Þannig að þetta helst allt saman í hendur. Þannig að það er áhugavert að skoða þetta nánar og fjalla nánar um stöðuna í þessu landi.“ 
 

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Jón Bjarka í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV