Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Enn þrýst á stjórnvöld að skoða kaup á Vigur

07.03.2019 - 10:20
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir nauðsynlegt að eyjan Vigur í Ísafjarðardjúpi verði vernduð og að aðgengi almennings að eyjunni verði tryggt. Til þess þurfi aðkomu stjórnvalda. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur skorað á umhverfisráðherra að ganga í málið en enn hafa engin svör borist frá ráðuneytinu. 

Ranverulegar áhyggjur af stöðu mála

Eyjan Vigur er ein þriggja eyja í Ísafjarðardjúpi. Í eyjunni er mikilvæg sjófuglabyggð þá eru í eyjunni elsta vindmylla landsins og elsti bátur landsins. Vigur var sett á sölu síðasta vor og erlendir aðilar sýndu í kjölfarið mikinn áhuga á kaupum. Í febrúar skoraði bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á umhverfisráðherra að ríkið freisti þess að kaupa eyjuna. Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, var gestur Morgunvaktarinnar á rás eitt í morgun. Hann segir Ísfirðinga hafa raunverulegar áhyggjur af því að auðmenn eignist Vigur og að eyjan verði lokuð almenningi.

„Já ég held að það sé alveg óhætt að hafa áhyggjur af því, að það geti raunverulega gerst, og jú sennilega er það samkvæmt skilgreiningu orðanna auðmenn sem geta keypt sér eyjur en það er ekkert endilega þar með sagt að allir auðmenn hafi illan ásetning. En þessi sýn gæti raungerst, að þarna yrði eyjan seld einhverjum sem hefði aðrar hugmyndir heldur en það að hafa hana opna almenningi þannig að við getum öll notið.“

Eyjan of kostnaðarsöm fyrir Ísafjarðarbæ

Hann segir óraunhæft fyrir Ísafjarðarbæ að kaupa eyjuna þó það hafi komið til tals. Þjóðminjasafnið á til að mynda tvær eignir á eyjunni og því fylgir fjármagn og kvaðir um viðhald.  Þar að auki sé eyjan slík náttúruperla að hún varði ekki einungis Vestfirðinga, heldur alla landsmenn. 

„Við höfum rætt þetta á vettvangi sveitarfélaganna við djúp, hvort það gæti verið sameiginleg aðkoma. Þær fjárhæðir sem hefur verið talað um að eyjan sé föl fyrir ná allt að þrjú hundruð milljónum og svo hefur maður heyrt líka mikið hærri tölur. Það yrði bara ofboðslega stórt og mikið verkefni og það væri bara mjög erfitt að réttlæta hverju ætlum við að sleppa í staðinn. “ 

Engin svör frá ráðuneytinu

Engin viðbrögð hafa borist frá ráðuneytinu. Þar til svör berast hyggst Guðmundur áfram beita sér fyrir verndun eyjunnar með inngripi stjórnvalda. 

„Ég held að fólk átti sig alveg á því að það virðist vera sem svo að það er heitasta umræðan um umhverfismál á Vestfjörðum snýst að Drangajökuls víðernunum þar sem eru fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á vatnsaflsvirkjun við Hvalá og svo á uppbyggingu á fiskeldi. Þar virðist allt púðrið fara í umræðu um það hversu dýrmætt það er að leyfa náttúrunni að njóta vafans, sem er skoðun sem að við Vestfirðingar deilum, en þarna er komið innlegg inn í þessa umræðu sem okkur finnst ekki síður mikilvægt að taka. Af því að þarna er komið tækifæri þar sem er hægt með einföldu, örlítið kostnaðarsömu, en einföldu inngripi að tryggja vernd náttúruperlu, “ segir Guðmundur.   

Hlusta má á viðtalið við Guðmund í spilaranum hér fyrir ofan.