Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn syrtir í álinn hjá Danske Bank

30.04.2019 - 09:57
Erlent · Danmörk · Eistland · Evrópa
epa06925875 Danske Bank branch in Tallinn, Estonia, 03 August 2018. Estonian Prosecutor General Lavly Perling said on 31 July, that they launched a criminal investigation over Danske Bank over money laundering allegations. According to reports 03 August
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Verð á hlutabréfum í Danske Bank lækkaði verulega við upphaf viðskipta í í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í morgun, eftir að bankinn birti afkomutölur frá fyrsta fjórðungi ársins.

Nettótekjur fyrstu þrjá mánuði ársins námu rúmlega 50 milljarða íslenskra króna sem er 36 prósentum minna en á sama tíma 2018 og sagðist bankinn gera ráð fyrir minni heildartekjum í ár en í fyrra.

Að sögn fréttastofunnar AFP hafa margir viðskiptavinir Danske Bank snúið sér annað, þannig hafi 8.500 Danir hætt viðskiptum við bankann fyrstu þrjá mánuði ársins og 9.900 á síðasta fjórðungi 2018. 

Danske Bank hefur átt undir högg að sækja vegna gruns um umfangsmikið peningaþvætti gegnum útibú bankans í Eistlandi og er talið að um 200 milljarðar evra hafi farið þannig í gegnum útibúið á árunum 2007-2015.