Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Enn sýking í íslensku sumargotssíldinni

08.11.2018 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talsverð sýking er í þeirri síld úr íslenska síldarstofninum sem landað hefur verið síðustu daga. Hún hefur því mestöll farið í bræðslu. Sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun segir þetta ekki koma á óvart.

Sýking hefur verið í stofni íslensku sumargotssíldarinnar meira og minna undanfarinn áratug. Og miðað við þá síldarfarma sem komnir eru á land á vertíðinni, sem nú er nýhafin, hefur það ekki breyst.

Mest af síldinni farið til bræðslu

Fjórar útgerðir hafa sent skip til veiða vestur af landinu og síld er komin í land á Vopnafirði, í Neskaupstað, á Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Á þremur af þessum stöðum hefur síldin mestöll farið til bræðslu. En í síldinni sem kom til Hornafirði var sýkingin minni og hún því hæf til frystingar. Ástandið er því misjafnt og virðist skipta máli hvar síldin er veidd.

Í samræmi við það sem Hafró óttaðist

„Þetta er því miður það sem við óttuðumst eftir síðasta leiðangur sem var farinn síðasta vetur,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri á sviði uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun. „Við sáum hversu sýkingarhlutfallið var orðið hátt að nýju í öllum árgöngum sem við vorum með undir í því. Þannig að þetta er því miður í samræmi við þær spár sem við vorum með."

Vaxandi sýking í stofninum

Fyrst um sinn var eingöngu sýking í eldri árgöngum síldarinnar en þeir yngri voru ósýktir. Það gaf vonir um að sýkingin myndi hverfa og hún fór minnkandi um tíma. En síðustu tvö ár segir Þorsteinn að sýking hafi líka greinst í yngri síldinni og ástandið því versnað á ný. „Þannig að þetta er þá búið að vera ansi viðvarandi vont ástand núna aftur. Eftir að hafa verið hjaðnandi nokkur ár á undan."