Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Enn skolpúrgangur í Ölfusá

01.08.2014 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar í nágrenni Ölfusár geta enn orðið varir við skolp í og við nágrenni árinnar þegar hún er vatnslítill. Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins segir úrbótum miða vel en áætlað er að framkvæmdir við sérstaka hreinsistöð hefjist síðar á þessu ári.

Töluvert var fjallað um skolp í Ölfusá á síðasta ári en Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafði ítrekað gert alvarlegar athugasemdir vegna fráveitu í sveitarfélaginu Árborg. Skriður komst á málið í framhaldi af umræðunni en framkvæmdir sem eiga að leysa vandann hafa staðið í nokkur ár. Til viðbótar er síðan áætlað að reisa sérstaka hreinsistöð. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segir þær framkvæmdir eiga að hefjast á þessu ári. „Við erum að undirbúa núna framkvæmdir við hreinsistöð og það er áætlað að þær hefjist á þessu ári. Það er s.s. hreinsistöð sem hreinsar öll föst efni úr skolpinu og síðan ný útrás út í ánna þannig að þessi sjónrænu áhrif, þau munu hverfa,“ segir Ásta. Þó muni sjónrænum áhrifum enn gæta ef íbúar líta sérstaklega eftir þeim. 

Ásta segir þetta ekki eiga við þegar áin er vatnsmikil eins og í dag, en sjónrænna áhrifa gæti vissulega þegar vatnið sé minna. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands segir úrbæturnar hafa tekið alltof langan tíma en fagnar því að skriður hafi komist á málið í fyrra og að framkvæmdir við hreinsistöðina hefjist í ár. Ásta segir íbúa hafa sýnt þessu skilning, þó eflaust séu þeir orðnir óþreyjufullir. „En íbúar hafa sýnt þessu skilning. Þetta er gríðarlega stórt verkefni sem þurfti að ráðast í og hefur verið unnið í nokkrum áföngum. Þessi áfangi sem við erum að fara í núna er bara einn af mörgum og auðvitað vilja íbúar að þetta rísi, en eins og ég segi hafa þeir sýnt þessu skilning,“ segir Ásta.