Jörð skelfur enn nærri Grímsey. Stærsti skjálfti gærkvöldsins mældist 3,9 að stærð en hann varð tíu mínútum fyrir miðnætti. Átta skjálftar hafa mælst yfir þrjá að stærð í nótt, þeirra stærstur mældist 3,7 um klukkan hálf sjö.
Á vef Veðurstofunnar segir að eftir skjálftahrinur sem þessar geti orðið mun stærri skjálftar. Skjálftarnir eiga flestir upptök sín um tíu til tólf kílómetra norðaustan við Grímsey. Skjálftahrinan hefur staðið nær óslitið frá fjórtánda febrúar og hafa á annað þúsund skjálftar mælst á svæðinu síðan. Sá stærsti mældist 4,1 að stærð.